„Ef þú þekkir engan verður allt erfiðara“ Samþættingarferli ungs flóttafólks á Íslandi

Höfundur: Adisa Mesetovic

Leiðbeinandi: Eyrún Ólöf Sigurðardóttir
Sérfræðingur: Eva Harðardóttir

Ágrip/Efni: 

Félagsleg samþætting flóttafólks er margþætt ferli sem krefst bæði aðlögunar af hálfu flóttafólksins og viðurkenningar frá móttökusamfélaginu. Markmið þessarar rannsóknar er að greina upplifun ungs flóttafólks á Íslandi af félagslegri samþættingu og aðlögun með sérstakri áherslu á reynslu þeirra af móttökuferlinu, félagslegum tengslum og hindrunum í aðlögunarferlinu.

Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði og þemagreiningu þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við einstaklinga með flóttabakgrunn. Þátttakendur voru valdir með tilliti til þess að þeir hefðu persónulega reynslu af samþættingarferlinu og áhrifum félagslegs stuðnings eða skorts á honum. Gögnin voru greind með áherslu á mynstur í frásögnum viðmælenda og tengsl þeirra við fræðilega umfjöllun um inngildingu og félagsauð.

Niðurstöður benda til þess að samskipti við innfædda jafnaldra hafi afgerandi áhrif á upplifun flóttafólks af samþættingu. Þeir sem upplifðu stuðning frá samfélaginu á fyrstu stigum aðlögunar fundu frekar fyrir tilfinningu um að tilheyra á meðan skortur á samskiptum, hindranir í kerfum og tungumálaörðugleikar juku hættu á félagslegri einangrun. Þátttakendur lýstu einnig mikilvægi markvissra úrræða og skilnings frá stjórnvöldum og stofnunum í að skapa jákvæða aðlögunarupplifun.

Helstu ályktanir rannsóknarinnar undirstrika þörfina á markvissri stefnumótun sem styður við inngildingu flóttafólks í samfélagið. Jöfn tækifæri til þátttöku í samfélagslífi, skilvirkari móttökuferli og viðurkenning á fjölbreytni geta stuðlað að farsælli félagslegri samþættingu og dregið úr hættu á jaðarsetningu.