Höfundur: Sóley Ágústa Ómarsdóttir
Leiðbeinandi: Lóa Guðrún Gísladóttir
Sérfræðingur: Auður Magndís Auðardóttir
Ágrip/efni:
Móðurhlutverkið er stórt og veigamikið hlutverk sem er í senn fallegt og gefandi en jafnframt ábyrgðarmikið og krefjandi. Hlutverkið sjálft sem og sýn og væntingar til þess hefur breyst í aldanna rás og bilið á milli kynjahlutverkanna minnkað. Þrátt fyrir það bera konur enn í dag megin ábyrgð á umönnun og velferð barna sinna auk þess að sjá um heimilið. Í nútímasamfélagi eru kröfur til mæðra miklar og nánast ógjörningur fyrir fullfríska móður að standa undir þeim væntingum sem samfélagið setur. Það gefur því auga leið að ef viðbótaráskoranir blandast inn í jöfnuna verður róðurinn enn þyngri og það þekkja mæður með ADHD af eigin raun. Megin markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á upplifun mæðra með ADHD af móðurhlutverkinu auk þess að skoða hvernig hugmyndir samfélagsins um mæður hafa litað andlega heilsu þeirra og sjálfsmynd. Rannsóknin er af eigindlegum toga og byggði gagnasöfnun á hálf-opnum einstaklings¬viðtölum við átta mæður með ADHD greiningu, á aldursbilinu 31-43 ára og voru þau þemagreind. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að mæður með ADHD upplifi sig oft öðruvísi og eigi, sökum einkenna sinna, oft í erfiðleikum með ýmsa þætti móðurhlutverksins sem samfélagið gerir ráð fyrir að þær ráði auðveldlega við. Þá kom fram að mæðurnar skorti stuðning og rífi sig niður fyrir að ná ekki að standast væntingar samfélagsins og lifi því oft við neikvæða sjálfsmynd, lágt sjálfsmat og skerta andlega heilsu. Hins vegar voru niðurstöðurnar jákvæðar þegar kom að greiningarferli, lyfjagjöf og auknum þroska þar sem að þeir þættir ýttu undir aukna sjálfsþekkingu, sjálfskilning og mildi í eigin garð. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mikilvægar fyrir þær sakir að þær varpa ljósi á upplifun hóps í samfélaginu sem ekki hefur áður verið rannsakaður hérlendis, auk þess geta niðurstöðurnar nýst til frekari rannsókna á viðfangsefninu.