Nafn nemanda: Melkorka Assa Arnardóttir
Leiðbeinendur: Eygló Rúnarsdóttir og Hafdís Guðjónsdóttir
Ágrip/efni: Rannsóknarspurning þessarar starfendarannsóknar er: Hvernig skapa ég sem tómstunda- og félagsmálafræðingur aðstæður fyrir jaðarsett hinsegin ungmenni til þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi? Í skipulögðu tómstundastarfi gegnir fagfólk lykilhlutverki sem fyrirmyndir, leiðbeinendur og jafningjar. Þessi starfendarannsókn beinir sjónum að því hvernig tómstunda- og félagsmálafræðingur getur skapað öruggar aðstæður og rými fyrir jaðarsett hinsegin ungmenni til þátttöku í skipulögðu tómstundastarfi, t.d. ungmennaskiptum, og gert þeim kleift að takast á við nýjar áskoranir. Ungmennaskipti hafa jákvæð áhrif á líf ungmenna, með því fá þau tækifæri til að ferðast, kynnast nýjum menningarheimum og mynda tengsla við önnur ungmenni. Rannsóknin er starfendarannsókn sem beinist að nálgun minni sem tómstunda- og félagsmálafræðingur í hlutverki leiðbeinanda við skipulag og framkvæmd ungmennaskipta fyrir hinsegin ungmenni. Gögn rannsóknarinnar byggja á dagbókarfærslum, ljósmyndum og ígrundun á samskiptum sem ég átti við samleiðbeinendur, ungmennin og forsjáraðila þeirra. Niðurstöðurnar benda til þess að með markvissri aðlögun aðstæðna, uppbyggingu á trausti og virðingu þá sé hægt að skapa valdeflandi og öruggt umhverfi þar sem ungmenni stíga út fyrir sinn þægindaramma. Rannsóknin undirstrikar hve mikilvægt er að mæta ungmennum á jafningjagrundvelli, aðlaga starfið að þörfum þátttakenda og stuðla að vellíðan og félagslegum þroska. Lærdómur af rannsókninni getur nýst öðrum fagmönnum er vinna með jaðarsettum ungmennum og stuðlað að aukinni inngildingu í tómstundastarfi.