„Það er svo gaman í tíma þegar við megum tala um dæmin“ Stærðfræði verður sameiginleg hugsun

Nafn nemanda: Bergþóra Guðmundsdóttir
Leiðbeinendur: Ósk Dagsdóttir og Edda Óskarsdóttir
Sérfræðingur: Hafdís Guðjónsdóttir

Ágrip/efni: Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig breytingar á kennsluháttum í stærðfræði gætu stutt við inngildandi skólastarf og eflt trú nemenda á eigin getu, virkni þeirra og námsgleði. Rannsóknin byggir á starfendarannsókn sem fram fór í 6. og 7. bekk í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndafræðilegur grunnur verkefnisins var sóttur í kenningar um vaxtarhugarfar, leiðsagnarnám og algilda hönnun náms. Gögnum var safnað með dagbókarfærslum kennara, viðtölum við nemendur og net­könnun, og þau greind með eigindlegri þemagreiningu þar sem einnig voru skoðaðir vendipunktar í þróunarferlinu.

Niðurstöðurnar sýna að markviss umbreyting frá hefðbundinni, einstaklingsmiðaðri bókavinnu yfir í kennslu sem byggist á opnum þrautum, samtali og samvinnu, skapaði sveigjanlegt, inngildandi og lýðræðislegt námsumhverfi. Kennarahlutverkið færðist frá stýringu yfir í að vera leiðsögn og stuðningur, þar sem lögð var áhersla á að skapa öruggt rými fyrir dýpri hugsun og virkni nemenda. Í greiningu kom fram að nemendur upplifðu aukna trú á eigin getu, betri skilning og meiri ánægju í stærðfræðinámi. Einnig kom í ljós að félagsleg tengsl, samkennd og sameiginleg ábyrgð á námi efldust. Mistök urðu hluti af námsferlinu og samvinna reyndist lykill að dýpri skilningi og þrautseigju.

Rannsóknin bendir til þess að þegar kennsla er mótuð út frá hugmyndum um vaxtarhugarfar, leiðsagnarnám og algildri hönnun náms verði til námsmenning sem styður við hæfni allra nemenda, eflir sjálfstæði og ýtir undir skapandi og samstarfsmiðaðri vinnu nemenda. Slíkt námsumhverfi samræmist markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla 2025 um hæfniþróun, lýðræðislegt skólasamfélag og nýtingu fjölbreytileika sem styrks. Framlag rannsóknarinnar felst í því að draga fram mikilvægi þess að hefja slíka þróun snemma og viðhalda henni með markvissri starfendarannsókn og faglegri teymisvinnu kennara.