Höfundur: Áróra Huld Bjarnadóttir
Leiðbeinendur: Pála Margrét Gunnarsdóttir, Hrund Þórarins Ingudóttir og Ólafur Páll Jónsson
Ágrip/Efni:
Markmið rannsóknarinnar var að skoða reynslu mæðra með geðsjúkdóma af móðurhlutverkinu, ásamt þeim áskorunum sem þær mæta og hvaða stuðning þær telja sig vanta. Það skiptir samfélagið miklu máli að vel takist í uppeldi barna. Gerðar hafa verið umfangsmiklar rannsóknir á uppeldi en lítið verið fjallað um sérstakar aðstæður foreldra með geðsjúkdóma. Rannsóknin er eigindleg rannsókn þar sem frásagnargreiningu var fléttað saman við þemagreiningu til að greina reynslu mæðranna. Tekin voru viðtöl við fimm mæður sem greindar hafa verið með geðsjúkdóm og áttu það sameiginlegt að hafa reynslu af barnaverndarkerfinu. Frásagnir mæðranna veittu dýrmæta innsýn í hvernig er að vera móðir í erfiðum og flóknum aðstæðum, hvernig veikindi og ábyrgð fléttast saman og viljann til að gera betur fyrir næstu kynslóðir. Mæðurnar eru hugrakkar í baráttu sinni og staðráðnar í að vera góðar mæður. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mæðurnar upplifa mikinn styrk frá móðurástinni þrátt fyrir að geðsjúkdómurinn setti strik í reikninginn. Álagið sem þær upplifðu var margþætt, þar sem krafan um að vera „venjuleg“ móðir var oft óraunhæf. Helsta áskorun mæðranna var skortur á viðeigandi stuðningi. Benda niðurstöðurnar því til þess að mikil þörf sé á foreldrafræðslu og stuðningi fyrir mæður með geðsjúkdóma. Þörfin liggur helst í að fá stuðning við að takast á við flóknar aðstæður og tilfinningar sem upp koma í daglegu lífi. Niðurstöður rannsóknarinnar ættu að nýtast við uppeldisfræðslu fyrir mæður með geðsjúkdóma og stuðning við þær í hlutverki sínu ásamt því að geta nýst öðrum sem vinna með mæðrum með geðsjúkdóma og börnum þeirra. Lykilhugtök: Móðurhlutverkið, geðsjúkdómar, áskoranir, stuðningur, móðurást.