Höfundur: Arite Fricke
Leiðbeinandi: Hanna Ólafsdóttir
Sérfræðingur: Gísli Þorsteinsson
Ágrip/Efni:
Ritgerðin byggir á starfendarannsókn sem unnin var af starfandi sjónlistakennara á tveggja ára tímabili. Tilgangurinn var að kanna hvernig mætti efla listræna sjálfsrækt sem þátt í kennsluháttum sjónlistakennara og hvernig hún getur stutt við faglega sjálfsmynd, vellíðan og starfsánægju. Rannsóknin sem er starfendarannókn byggði á lestri fræðilegra heimilda, persónulegri listsköpun, gagnaöflun og kennslutilraunum. Tilgangurinn var jafnframt persónulegur, þar sem rannsakandi hafði að markmiði að styrkja eigin sjálfsmynd sem kennari og listamaður með skapandi sjálfsrækt sem leiðarljós í starfi. Rannsóknarspurningin sem lögð var til grundvallar var: Hvernig má efla listræna sjálfsrækt sem þátt í starfi sjónlistakennara? Til stuðnings þeirri meginspurningu var jafnframt skoðuð spurningin: Hvernig birtist faglegur ávinningur af samþættingu listiðkunar og kennslu?
Ritgerðin sækir fræðilegan innblástur meðal annars í hugmyndir Carol Wild (2022) og Jorge Lucero (2018) um sjónlistakennara sem listamann og hugmyndalistamann. Niðurstöðurnar benda til að regluleg þátttaka í listrænni iðkun og meðvitund um eigin sköpunarþörf og sjálfsrækt geti eflt faglega sjálfsmynd kennara og stuðlað að aukinni starfsánægju. Þriðja sjónarhornið og hugmyndalist sem kennsluaðferð reyndust mikilvæg verkfæri til að styðja við skapandi og umhyggjusamt námsumhverfi. Rannsóknin gefur innsýn í möguleika sjónlistakennara til að þróa bæði persónulega og faglega hæfni sína í gegnum samþættingu listsköpunar og kennslu.
Lykilhugtök: sjónlistakennari (e. artist-teacher), listiðkun sjónlistakennarams (e. artist-teacher practice), a/r/tography/, starfendarannsókn, sjálfsrækt