Að læra í reynslunni þýðir að láta sig gossa: Starfstengd sjálfsrýni um reynslumiðað nám í sértæku hópastarfi með unglingum

Höfundur: Elí Hörpu Önundar

Leiðbeinendur: Jakob Frímann Þorsteinsson og Karen Rut Gísladóttir

Ágrip/efni:

Samkvæmt Alþjóðlegu heilbrigðisstofnuninni (WHO) er talið að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun. Félagsleg einangrun eykur líkur á og magnar upp tilfinningar einmanaleika, en samkvæmt íslensku æskulýðsrannsókninni 2024 kemur fram að 10-13% barna í 8.-10. bekk séu oft eða alltaf einmana. Fátt er um úrræði fyrir þennan hóp ungmenna, en Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð, sem reknar eru af velferðarsviði Reykjavíkurborgar, eru dæmi um slíkt. Unglingasmiðjurnar eru sértækt hópastarf fyrir unglinga í 8. – 10. bekk sem upplifa félagslega einangrun og byggir starfið á  hugmyndafræði lausnamiðaðra aðferða, valdeflingu og reynslumiðað náms.

Rannsóknin sem hér segir frá er starfstengd sjálfsrýni. Tilgangur hennar er að styrkja félagsleg tengsl og sjálfsmynd félagslegra einangraðra unglinga á aldrinum 13-16 ára í gegnum hálf-formlegt reynslumiðað nám á hátt sem að ýtir undir tilfinningu þeirra um að tilheyra. Markmiðið er að skoða og þróa mínar eigin hugmyndir um hálf-formlegt reynslumiðað nám eins og þær birtast í starfi mínu sem tómstundafræðingur í þverfaglegu teymi sem skipuleggur sértækt hópastarf fyrir og með unglingum sem upplifa félagslega einangrun. Helstu gögn í rannsókninni voru rannsóknardagbók, upptökur af teymisfundum og samtölum við gagnrýna vini, ljósmyndir úr starfinu og ýmis praktísk gögn úr daglegu starfi á Stíg (dagskrá, fundarnótur). Óbeinir þátttakendur í rannsókninni eru samstarfsfólk mitt og ungmennin sem eru þátttakendur á Stíg.

Helstu niðurstöður gefa vísbendingar um að til að auka skilning á reynslumiðuðu námi er mikilvægt að starfsfólk á vettvangi kynni sér mismunandi kenningarramma reynslumiðaðs náms og leggi sig fram um að átta sig á hverjar birtingarmyndir þeirra eru á vettvangi. Þá er mikilvægt að rýna í og taka meðvitaða ákvörðun um hvaða straumum og stefnum sé vert að fylgja, athuga hverjum sé hægt að blanda saman og hvernig og prófa sig áfram í starfi. Til að efla eigin fagmennsku sem gagnrýninn, reynslumiðaður menntandi er mikilvægt að hlúa að og rækta með sér eiginleika á borð við sveigjanleika, næmni fyrir félagslegum anda í hópnum, forvitni gagnvart öðrum og upplifunum þeirra og sjálfstraust til takast á við ófyrirséðar aðstæður eða aðstæður sem eru tilfinningalega krefjandi.