Að njóta staðar og stundar: Starfshættir í leiðöngrum með leikskólabörnum

Höfundur: Elín Sigríður Ármannsdóttir

Leiðbeinandi: Jakob Frímann Þorsteinsson
Sérfræðingur: Karen Rut Gísladóttir

Ágrip/Efni:

Að njóta staðar og stundar er gagnlegt fyrir leikskólabörn því þau kynnast hverfinu sínu og njóta eiginleika þess á sínum hraða og forsendum. Tilgangur verkefnisins er að efla meðvitund og forvitni leikskólabarna fyrir nærumhverfi sínu. Markmiðið er að skoða hvernig við, ég sem leiðsögumaður og hópur leikskólabarna, stöldrum við og veltum fyrir okkur því sem verður á vegi okkar í útiveru og leiðöngrum um nánasta umhverfi.

Leitast verður við að svara rannsóknarspurningunni: Hvernig nýti ég útiveru og leiðangra með leikskólabörnum til að vekja forvitni þeirra á nærumhverfinu?

Ritgerðin er í formi starfendarannsóknar þar sem ég rýni í eigin starfshætti í vikulegum leiðöngrum með 47 leikskólabörnum í fjórum hópum ásamt einum til tveimur samstarfmönnum um hverfi Leikskólans Sunnufoldar í Grafarvogi. Rannsóknartímabilið stóð yfir frá júní 2024 fram í mars 2025 þar sem haldin var rannsóknardagbók og skráðar ferðasögur úr leiðöngrum ásamt því að nýta ljósmyndir úr ferðunum og hljóðupptökur af samtölum mínum við börnin til að fá fjölbreyttari innsýn í það sem við lærðum í þessum ferðum.

Niðurstöðurnar benda til þess að börn og samstarfsmenn hafi notið reglulegra leiðangra, þeir hafi brotið upp daginn og börnin kynntust hverfinu á rólegri göngu. Andrúmsloftið var frjálst, börnin virtu fyrir sér fjölda viðfangsefna auk þess að fá tækifæri á að taka þátt í ákvörðunum um hvar var staldrað við og hvert ferðinni var heitið.

Ég dreg þá ályktun að leggja ætti áherslu á að setja inn leiðangra um nærumhverfi barna í dagskipulag leikskóla þar sem börnin eigi kost á að kynnast fjölbreyttum viðfangsefnum í raunverulegum aðstæðum.

Leiðsögumenn leiðangra ættu að leyfa börnum að njóta staðar og stundar allan tímann með því að brydda upp á nýjum áfangastöðum og staldra við viðfangsefni sem vekja áhuga allt frá því þegar lagt er af stað þar til komið er til baka. Hvað er dásamlegra að sjá ábyrg börn sem fara um hverfið sitt og gæta sín þar sem þess er þörf.