Höfundur: Agnieszka Aurelia Korpak
Leiðbeinandi: Helga Rut Guðmundsdóttir Sérfræðingur: Bryndís Baldvinsdóttir
Ágrip/efni: Tilgangurinn með þessari rannsókn er að varpa ljósi á hvaða þættir hafa áhrif á tónlistarlega sjálfsmynd kennara og starfsmanna leikskóla og hvort tónlistarleg sjálfsmynd þeirra tengist aldri, starfsreynslu, kyni, vinnustöðu, landshluta þar sem þeir vinna, persónulegum áhuga, löngun, stuðningi eða viðurkenningu frá öðrum. Ástæðan fyrir valinu á þessu viðfangsefni er mín eigin reynsla í leikskólastarfi á Íslandi, þar sem ég hef fylgst með í gegnum mörg ár hversu stór hluti samstarfsmanna minna og leikskólakennarar notar mjög sjaldan eða jafnvel aldrei kosti tónlistar þegar þeir vinna með börnum vegna þess að þau telja sig ekki hafa sjálfstraust í þessu efni, eða vita ekki nákvæmlega hvernig á að stunda tónlist í leikskólanum fyrir utan það að syngja með börnum.
Í fyrri hluta verksins er fjallað á fræðilegan hátt um vísindalega nálgun á mikilvægi og þörf tónlistariðkunar í leikskóla og hlutverki leikskólakennara á þessu sviði. Fjallað er um skilgreiningu á tónlistarlegri sjálfsmynd og hvers konar tónlistarlega sjálfsmynd leikskólakennarar hafa almennt samkvæmt rannsóknum sem framkvæmdar voru í öðrum völdum löndum (s.s. í Póllandi, Bandaríkjunum, Ástralíu og Tyrklandi). Seinni hluti verksins er rannsókn. Við gagnaöflun nota ég niðurstöður úr spurningakönnun sem send var í rafrænu formi út í alla leikskóla á Íslandi og varðaði tónlist sem áhugasvið leikskólakennara og starfsmanna.
Meginmarkmið vinnu minnar var að þróa sjálfsmatskönnun, fyrir kennara og starfsfólk leikskóla, sem getur hjálpað að greina hvernig sjálfsvitund starfsmanna leikskólans er um eigin tónlistarkennd og sem getur hugsanlega útskýrt og spáð fyrir um hvort þessir starfsmenn muna nýta færni sína í starfi með börnum.