Höfundur: Andrea Marel
Leiðbeinandi: Eygló Rúnarsdóttir
Sérfræðingur: Hervör Alma Árnadóttir
Ágrip/Efni: Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka sýn starfsfólks félagsmiðstöðva í vettvangsstarfi í Reykjavík og helstu samstarfsaðila þeirra á hlutverk vettvangsstarfs félagsmiðstöðva í forvörnum gegn áhættuhegðun barna og unglinga. Rannsóknin er eigindleg og notaðist rannsakandi við eigindleg viðtöl og vettvangsnótur rannsakanda úr vettvangsathugun í vettvangsstarfi félagsmiðstöðva. Í gagnasöfnun fyrir rannsóknina voru tekin viðtöl við fjóra félagsmiðstöðvastarfsmenn sem hafa mikla reynslu af vettvangsstarfi félagsmiðstöðva í Reykjavík. Einnig voru tekin viðtöl við lögreglumann og félagsráðgjafa sem hafa reynslu af þátttöku í vettvangsstarfi félagsmiðstöðva á vettvangi auk þess að hafa reynslu af ýmiskonar samstarfi við félagsmiðstöðvastarfsmenn í tengslum við vettvangsstarf. Í gagnasöfnun voru einnig nýttar vettvangsnótur höfundar eftir að hafa fylgt starfsfólki félagsmiðstöðva í vettvangsstarfi á vettvangi.
Í verkefninu var leitast við að ná fram sýn fagfólks með ólíka reynslu af vettvangsstarfi félagsmiðstöðva á hlutverk vettvangsstarfs í forvörnum gegn áhættuhegðun unglinga, greina hvaða færni, eiginleika eða þekkingu vettvangsstarfi þarf að hafa til að bera til að starfið nái markmiðum sínum, skoða inntak og starfshætti þess og kanna hvernig starfið samræmist lögum, reglum og stefnum sem félagsmiðstöðvar í Reykjavík starfa eftir.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vettvangsstarf félagsmiðstöðva í Reykjavík sé lágþröskuldaþjónusta sem geti stutt við verndandi þætti í lífi barna og unglinga í viðkvæmri stöðu og geti mögulega greitt leið þeirra að frekari farsældarþjónustu. Einnig má merkja að viðmælendur telja þátttöku sína í vettvangsstarfi félagsmiðstöðva hafa veitt þeim nýja þekkingu sem nýtist þeim áfram í starfi í þágu barna og unglinga. Enn fremur benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að færni starfsfólks og samstarf við lykilaðila séu mikilvægir þættir í vettvangsstarfi félagsmiðstöðva í Reykjavík.