Viðbrögð í grunnskólum við áföllum í nemendahópnum.

Höfundur: Áslaug Hreiðarsdóttir 

Leiðbeinandi: Eva Dögg Sigurðardóttir / Sérfræðingur: Anna Kristín Sigurðardóttir

Áföll barna geta verið að ýmsum toga og geta haft áhrifa á líðan þeirra og margvíslegar afleiðingar síðar á lífsleiðinni.  Áföll geta skapað ótta, öryggisleysi og leitt til ýmissa tilfinningalegra viðbragða og hegðunarvanda ef ekki er brugðist við snemma með viðeigandi þjónustu. Með lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021), er stuðlað að samþættri þjónustu við börn og fjölskyldur til að bregðast við mismunandi vanda og vinna að þverfaglegu samstarfi milli kerfa, með þarfir barna að leiðarljósi.  

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig brugðist er við áföllum í nemendahópnum og á hvern hátt ný lög um farsæld barna hafa haft áhrif.  Rannsóknin er eigindleg og notast var við hálfopin viðtöl við skólastjóra og kennara í tveimur skólum í sitt hvoru sveitarfélaginu á höfuðborgarsvæðinu eða átta aðila. Allir viðmælendur hafa mikla reynslu af kennslu og skólastjórnendur af stjórnun.  Leitast var eftir því að skoða  hvernig grunnskólinn tekur á áföllum í nemendahópnum, hvort til sé aðgerðaráætlun í skólanum, hvernig henni er fylgt eftir, hvort kennarar séu meðvitaðir um aðgerðaáætlun skólans ef upp kemur áfall í nemendahópnum og hvort að einhverjar breytingar hafa orðið með tilkomu farsældarlaganna.  

Niðurstöður benda til þess að í skólunum tveimur er til aðgerðaáætlun ef upp kemur áfall  í nemendahópnum, en lendir oftast á umsjónarkennara að fylgja barni eftir sem lent hefur í áfalli.  Kennarar sögðust  viljað fá meiri stuðning til að geta sinnt barninu betur sem orðið hefur fyrir áfalli og haft aðgang að handleiðslu til að geta leitað eftir faglegri þekkingu. Bæði kennarar og skólastjórnendur voru flestir á því að með farsældarlögunum sæju þeir fram á að fá meiri stuðning og að fleiri fagaðilar myndu koma að málum barna innan skólans sem orðið hafa fyrir áfalli.