Brimbretti á Íslandi

Höfundur: Maríanna Þórðardóttir

Leiðbeinandi: Örn Ólafsson

Ágrip/Efni:

Brimbrettaíþróttin hefur á undanförnum árum notið aukinna vinsælda við Íslandsstrendur og er nú orðin aðgengilegri sem útivistar- og íþróttagrein fyrir einstaklinga á mismunandi aldri og með ólíka hæfni. Þessa auknu þátttöku má rekja til vaxandi áhuga almennings á útivist og náttúruíþróttum ásamt aukinni vitundarvakningu um gildi reglubundinnar hreyfingar og heilbrigðs lífernis en einnig vegna aukinna gæða í útbúnaði. Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun er skortur á sérhæfðu íslensku námsefni sem getur veitt byrjendum nauðsynlegan fræðilegan og verklegan grunn til að bæta færni sína og stunda íþróttina á öruggan og meðvitaðan hátt. Með þessu verkefni er leitast við að fylla þá vöntun með útgáfu aðgengilegrar og hagnýtrar handbókar sem stuðlar að framförum byrjenda og greiðir leið þeirra að þátttöku í íþróttinni.

Handbókin er hönnuð með það að markmiði að efla sjálfstraust og hæfni byrjenda með skýrum leiðbeiningum um lykilatriði íþróttarinnar svo sem framkvæmd rennslis, hvernig standa skuli upp á brettinu og aðferðir við einfaldar beygjur. Einnig er lögð áhersla á að miðla nákvæmum og hagnýtum upplýsingum um umhverfisvitund, mat á veður- og sjóaðstæðum, viðeigandi útbúnaði og öryggisatriðum sem nýtast jafnt byrjendum sem lengra komnum iðkendum. Verkefnið stuðlar þannig að sjálfbærri, meðvitaðri og öruggari iðkun brimbrettaíþróttarinnar ásamt því að efla fagmennsku og styrkja innviði íþróttarinnar hér á landi með því að auka aðgengi að faglegri fræðslu.