Félagslíf í framhaldsskólum: Skipulag og stuðningur

Höfundur: Bjarni Gautur Eydal Tómasson

Leiðbeinandi: Árni Guðmundsson
Sérfræðingur: Geir Bjarnason

Ágrip/Efni:

Þátttaka í félagslífi í framhaldsskóla, sem oft er vísað til sem óformlegs náms, hefur margvísleg jákvæð áhrif, bæði á námsárangur og þroska ungmenna. Rannsóknarspurningin sem hér er leitað svara við er: Hvernig styðja framhaldsskólar við félagslífið og þátttöku nemenda í því? Meðal þess sem er kannað er hvernig skólarnir vinna að því að efla félagslífið, hvert hlutverk skóla og nemenda er í að skipuleggja það, hvort lögð sé áhersla á að sem flestir taki þátt, hvort félagslífið taki miklum breytingum milli ára og hvernig það er fjármagnað.

Markmið rannsóknarinnar er að afla þekkingar á því hvaða leiðir valdir framhaldsskólar fara til að styðja við félagslífið þar og því er þessi rannsókn mikilvægt framlag til að auka þekkingu á þessu mikilvæga starfi. Gagna var aflað með viðtölum við sérfræðinga, skólastjórnendur og starfsfólk sem vinnur við að styðja félagslíf nemenda í fimm ólíkum framhaldsskólum, en einnig voru tekin hefðbundin eigindleg viðtöl við nemendur sem eru í forsvari fyrir félagslífið.

Niðurstöður sýna að allir fimm framhaldsskólarnir styðja með markvissum hætti við félagslífið og þátttöku nemenda í því, m.a. með því að vera með starfsfólk sem hefur það hlutverk að styðja við félagslíf nemenda. Allir skólarnir lögðu áherslu á að nemendur skipuleggi félagslífið með sjálfstæðum hætti og litið er á viðburðastjórnun og skipulag starfs nemendafélaganna sem mikilvægan hluta af því óformlega námi sem félagslífið hefur upp á að bjóða. Í öllum skólum var fyrir hendi öflugt félagslíf með afar fjölbreyttum viðburðum og starfsemi, þar á meðal tónlistar- og leiklistarstarfi, blaða- og myndbandaútgáfu, klúbbastarfsemi og dans- og söngleikjum. Lögð var áhersla á að ná til sem flestra nemenda. Misjafnt var hversu miklar hefðir voru fyrir hendi í skólunum og félagslífið var misþróttmikið. Nemendur bera alls staðar mikla ábyrgð á starfinu, þar með talið fjármálum og fjáröflunum. Þó nemendur fari fyrir félagslífinu setja skólarnir mjög ákveðinn ramma, t.d. hvað varðar neyslu áfengis og vímuefna, sem er ekki leyfileg á viðburðum skólans, og einnig les starfsfólk yfir efni sem birt er í skólablöðum.

Niðurstöður sýna jafnframt að svokallað skuggafélagslíf, þ.e. viðburðir sem eru skipulagðir af nemendum utan skólans, t.d. bjórkvöld, eru einnig hluti af félagslífinu þó það sé ekki skipulagt með stuðningi skólanna. Niðurstöður rannsóknarinnar skapa ákveðinn þekkingargrunn sem nýta má til að efla félagslíf og sem grunn að frekari rannsóknum á viðfangsefninu.