Höfundur: Hélène Rún Benjamínsdóttir
Leiðbeinandi: Renata Emilsson Pesková
Sérfræðingur: Bergljót Gyða Guðmundsdóttir
Ágrip/Efni:
Með auknum fjölbreytileika í menningar bakgrunni nemanda á Íslandi hafa skólar þurft að aðlaga skólastarfið til að koma til móts við fjölbreyttan tungumála bakgrunn nemenda. Rannsóknir sem beina sjónum sínum á farsæla kennsluhætti fyrir fjöltyngd börn er að skornum skammti. Þetta undirstrikar þörfina fyrir aukinn skilning meðal kennara og fagaðila á þessu sviði.
Í þessari rannsókn er fjöltyngd sjálfsmynd grunnskólabarna skoðuð í samhengi við upplifun þeirra og viðhorf umsjónarkennara þeirra til sjálfsmyndar nemenda þegar kemur að þeim tungumálum sem þau tala. Tilgangur rannsóknarinnar er tvíþættur. Annars vegar að bæta við þekkingu á fjöltyngdri sjálfsmynd barna í íslensku samhengi, þar sem slíkar rannsóknir eru fáar. Hins vegar að stuðla að auknum skilningi meðal kennara og skólastjórnenda á því hvernig best sé að styðja við fjöltyngd börn í skólastarfi. Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði og er fjöltilviksrannsókn. Gögn voru unnin úr hálf-opnum viðtölum við tvo fjöltyngda grunnskólanemendur og umsjónarkennara þeirra. Samhliða viðtölum teiknuðu og útskýrðu nemendur tungumála sjálfsmyndir sínar. Greining gagna byggir á þemagreiningu.
Niðurstöður benda til þess að kennarar einblíni að mestu á áskoranir tengdar fjöltyngi og að eintyngdarvæntingar séu ríkjandi. Fjöltyngi nemenda var oft ósýnilegt í skólastarfinu, og kennarar áttu erfitt með að tengja það við styrkleika. Nemendur lýstu skólanum sem eintyngdu umhverfi þar sem þeirra tungumál og menning fengu lítið rými. Þeir töldu kennara ekki viðurkenna fjöltyngda sjálfsmynd sína. Þrátt fyrir þetta litu nemendurnir sjálfir á fjöltyngi sitt sem styrkleika. Einn nemandi útskýrði hvernig hún nýtti krosstyngingu í daglegu lífi, sem fellur að kenningum um fjöltyngi sem auðlind. Í tungumála sjálfsmyndum sínum völdu nemendur liti út frá tilfinningum eða tengingu við þjóðfána og settu lítið rými í að staðsetja tungumál á líkamanum.
Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að fjöltyngi sé sýnilegt og viðurkennt í skólastarfi. Niðurstöðurnar benda til þess að fjöltyngd börn skorti formlegan stuðning í að þróa og viðhalda fjöltyngdri sjálfsmynd sinni í skólaumhverfinu. Það er brýnt að kennarar fái aukna fræðslu um hvernig fjöltyngi getur verið styrkleiki og hvernig hægt er að skapa námssamfélag sem styður og viðurkennir fjölbreyttan tungumála bakgrunn nemenda.