Höfundur: Guðbjörg Fjóla Hannesdóttir
Leiðbeinandi: Lóa Guðrún Gísladóttir Sérfræðingur: Anna Magnea Hreinsdóttir
Ágrip/efni: Foreldrafræðsla á sér langa sögu á heimsvísu en töluvert styttri hérlendis. Með foreldrafræðslu er tilgangurinn að styrkja foreldra í foreldrahlutverkinu og auka foreldravitund þeirra. Ýmsan ávinning má sjá út frá foreldrafræðslu og má meðal annars nefna aukinn námsárangur, vellíðan barna og sterkari tengsl. Taki foreldrar þátt í skólastarfi barna sinna má sjá að börnum gengur betur í skólanum. Markmið rannsóknarinnar er að átta sig á því hvaða leiðir eru færar til að fá foreldra til þess að mæta í og taka þátt í foreldrafræðslu sem sett yrði á laggirnar innan leik- og grunnskóla landsins. Rannsóknin snýr að þróunarverkefni sem hafði þann tilgang að þróa markvissa fræðslu og ráðgjöf við foreldra um uppeldi barna í samstarfi við leik- og grunnskóla og skólaþjónustu sveitarfélaga, Auglýst var eftir þróunarskólum til að taka þátt í verkefninu og myndaði starfsfólk skólaþjónustunnar, leik- og grunnskóla samráðshóp sem tóku þátt í reglulegum umræðufundum frá september 2023 til vorsins 2024. Niðurstöður þeirra funda liggja hér til grundvallar og sýna meðal annars að þörf er á að ræða við foreldrahópinn og átta sig á þörfum þeirra varðandi tímasetningar fyrir foreldrafræðslu. Mikil óvissa virtist ríkja um hvort foreldrar myndu sækja fræðsluna ef ekki yrði fundnar leiðir til að til að efla samstarf grunnskóla og foreldra í stuðningi við uppeldi og nám barna. Þátttakendur voru flestir sammála um að fræðslan henti best á meðan skólatíma stendur. Þeim þótti jafnvel mikilvægt að boðið yrði upp á eitthvað með kaffinu til þess að trekkja foreldra frekar að námskeiðinu. Finna þarf hvata fyrir foreldra til þess að afla sér frekari færni í foreldrahlutverkinu. Greinin hlýtur nafn sitt af hugleiðingum um að breyta þurfi samfélaginu í heild sinni svo að menning mótist um að sjálfsagt sé að sækja slík námskeið og að ekki sé litið niður á þá foreldra sem sækja sér aukna fræðslu um uppeldishlutverkið. Rannsóknin sýnir því nokkra þætti sem reynst gætu mikilvægir að hafa í huga þegar foreldranámskeið eru skipulögð innan skóla. Farsælast er að nýta vettvang grunnskóla til að veita þá fræðslu og leiðsögn og stuðla þannig að markvissu samstarfi við foreldra og börn sem einkennist af gagnkvæmri virðingu og trausti.