Viðhorf nemenda á miðstigi til yndislestrar

Höfundur: Hafdís Helga Bjarnadóttir 

Leiðbeinandi: Jón Yngvi Jóhannsson / Sérfræðingur: Helga Birgisdóttir

Ágrip/efni: Markmiðið með rannsókninni var að kanna hvert viðhorf nemenda á miðstigi væri í garð yndislestrar og hvaða áhrif bókval gæti haft. Þá voru niðurstöður bornar saman við niðurstöður nemenda á unglingastigi til að sjá hvort einhver breyting væri eftir aldri. Með rannsókninni er hægt að sjá tengsl bókavals við viðhorf til yndislestrar og nýta þær upplýsingar til úrbóta. Það er mikilvægt að skoða þessi tengsl þannig að nemendur geti í raun og veru orðið sjálfstæðir lesendur sem eiga að geta valið sér lesefni til bæði gagns og ánægju.

Í ljósi hnignandi stöðu íslenskra ungmenna í lestri hefur verið lögð áhersla á aukinn lestur í menntakerfinu til að sporna við þeirri þróun, en þar kemur yndislestur sterkur inn. Rannsóknin var framkvæmd skólaárið 2023-2024 og átti það einnig við um úrvinnsla gagna. Hún var byggð á megindlegum rannsóknaraðferðum og fengu 143 nemendur úr fjórum þátttökuskólum, tveir þeirra á landsbyggðinni og tveir á höfuðborgarsvæðinu, í hendurnar spurningalista með fjölvals- og opnum spurningum. Rannsóknarspurningin var: Hver er upplifun nemenda í 6. bekk gagnvart yndislestri og gæti bókaval haft þar einhver áhrif?. Helstu niðurstöður voru þær að meirihluti nemenda eða 57% (N= 143) þykir allt í lagi að lesa. Jafnframt sagðist helmingur þeirra eiga stundum auðvelt með að lesa en aftur á móti virtust þeir almennt ekki fá mikla aðstoð við bókaval.