Höfundur: Halldóra Sigtryggsdóttir
Leiðbeinendur: Karen Rut Gísladóttir og Sara Margrét Ólafsdóttir
Ágrip/Efni: Börnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn hefur fjölgað töluvert í leikskólum á Íslandi. Niðurstöður rannsókna benda til þess að börnin búi yfir margvíslegum tungumálaauðlindum sem ekki hafi tekist sem skyldi að ná utan um í daglegu starfi, með inngildingu (e. inclusion) fjöltyngdra barna í huga (Aneta Figlarska o.fl., 2017; Anna Magnea Hreinsdóttir og Hanna Ragnarsdóttir, 2019; Sara Margrét Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir, 2017). Stjórnendur, kennarar og starfsfólk leikskóla þurfa því að öðlast þekkingu, öryggi og færni til að koma til móts við öll börn og virkja þau í leik og daglegu starfi.
Um er að ræða starfendarannsókn sem fer fram í fjölmenningarlegum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu, þar sem tæplega 90% barnanna eiga annað heimamál en íslensku. Tilgangur verkefnisins er að efla öryggi starfsfólks í að stíga inn í sjálfsprottinn leik fjöltyngdra barna og nýta námstækifærin sem þar gefast til að efla íslenskan orðaforða, samskiptafærni og málvitund barnanna. Markmiðið er að fjölga þeim stundum sem börnin fá til að auka íslenskan orðaforða og nota hann í samskiptum og leik. Þátttakendur í rannsókninni voru fimm starfsmenn og óbeinir þátttakendur voru börn í tveimur elstu árgöngum leikskólans. Gagnaöflun fólst í vettvangs- og þátttökuathugunum, rýnihópasamtölum og rannsóknardagbókum.
Helstu niðurstöður sýna að þegar starfsfólk öðlaðist meiri skilning á sjálfsprottnum leik, jókst öryggi þeirra við að stíga inn og styðja við leik barnanna. Breytingar sem gerðar voru í tengslum við efnivið og námsrými (e. learning spaces) stuðluðu að auknu flæði í leiknum og valdeflingu barnanna. Stjórnendur voru fyrirmyndir annars starfsfólks, þekktu styrkleika þess, veittu fræðslu og komu auga á aðstæður í leik barna þar sem þau þurftu frekari stuðning.
Í leikskólastarfi með fjölbreyttum barnahóp þurfa stjórnendur, kennarar og starfsfólk leikskóla að þróa með sér næmi og starfshætti sem stuðla að lýðræðislegri þátttöku allra barna, þar sem fyrri reynsla barnanna fær að njóta sín. Þátttaka starfsfólks í sjálfsprottnum leik barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn eykur innihaldsrík samskipti þeirra á milli, stuðlar að auknum orðaforða barnanna og tryggir jafna þátttöku þeirra í leikskólastarfinu.