Loftslagskvíði og kennsla í grunnskóla: Samþætting SEE Learning, Innri þróunarmarkmiðanna, og áfallamiðaðrar kennslufræði

Höfundur: Guðný Jórunn Gunnarsdóttir

Leiðbeinandi: Ólafur Páll Jónsson
Sérfræðingur: Ingibjörg Kaldalóns

Ágrip/Efni:

Loftslagskvíði hefur í vaxandi mæli haft áhrif á börn og ungmenni seinustu ár vegna loftslagsbreytinga. Skilaboðin sem þessi kynslóð hefur verið að fá, beint og óbeint, frá samfélaginu er að hún sé síðasta kynslóðin sem geti forðað mannkyni frá óafturkræfri eyðileggingu jarðarinnar. Þessi starfendarannsókn fjallar um viðleitni mína til að bera kennsl á loftslagskvíða nemenda í 5. bekk og lýsir því hvernig ég hef leitast við að efla fagmennsku mína sem náttúrufræðikennari með heildrænum, skaðaminnkandi starfs- og kennsluháttum. Í vinnu minni hef ég byggt á námskrá um sjálfbærnimenntun frá UNESCO sem ég hef samþætt víddum Innri þróunar markmiðanna (e. Inner development goals), áfallamiðað kennslufræði (HEARTS), og SEE Learning, (Social, Emotional and Ethical Learning). Ég hef fléttað þessa ólíku þætti saman í viðleitni til að fræða og valdefla nemendur, með það að markmiði að þeir geti í senn tekist á við breyttan heim og djúpstæðar tilfinningar. Gögnum var safnað með rannsóknardagbók, verkefnum nemenda, upptökum og umræðum úr kennslu. Rannsóknarferlið gaf mér nýja sýn á sjálfa mig sem fagmann, hvernig lífsreynsla mín spilar inn í styrkleika mína sem og hvernig ég tekst á við áskoranir. Í niðurstöðum var hægt að greina að nemendum var mjög annt um náttúruna í ljósi þeirra afleiðinga sem loftslagsbreytingar höfðu í för með sér. Nokkur ummerki voru um loftslagskvíða en ekki að því marki að hann var farin að vera hamlandi. Gera má ráð fyrir vegna ungs aldurs nemenda að skilningur þeirra á umfangi loftslagsbreytinga var takmarkaður, en þeir sáu samt mikilvægi þess að bregðast við. Nemendur vildu vera hluti af lausninni og sáu að þau gætu verið áhrifaríkur hlekkur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta gefur til kynna að mikilvægt sé að skólakerfið grípi inn í á heildrænan máta og valdefli nemendur áður en þau upplifa yfirþyrmandi kvíða vegna loftslagsbreytinga.