Höfundur: Helena Rut Hannesdóttir
Leiðbeinandi: Jóhanna Thelma Einarsdóttir
Sérfræðingur: Þóra Sæunn Úlfsdóttir
Ágrip/Efni: Stærð orðaforða barna hefur áhrif á málþroska þeirra, lítill orðaforði getur bent til málþroskavanda og getur haft áhrif á nám þeirra og líðan. Börn með slakan málþroska eru þá í frekari áhættu að lenda í vanda með frekari nám og/eða í tilfinningalegum eða hegðunarerfiðleikum. Það þarf að byrja vinna að því að auka orðaforðann á skipulagðan hátt um leið og þau hefja leikskóladvöl og hafa orðaforðavinnu í huga í öllu daglegu starfi til að ná árangri. Mikilvægt er að byggja á gagnreyndum aðferðum sem rannsóknir hafa sýnt fram á að séu árangursríkar með börnum í leikskólum. Endurvarp, markorðaþjálfun, fyrirmynd, samræðulestur og umhverfiskennsla eru meðal þeirra algengustu aðferða sem hafa verið notaðar með góðum árangri í rannsóknum. Starfsfólk og umhverfi leikskólans eru mikilvægir þættir sem þurfa vinna saman og nýta aðferðirnar til að hjálpa öllum börnum að ná árangri. Börn sem þurfa málörvun vegna orðaforða þurfa ekki einungis að fá orðforðakennslu í gegnum sérstaka íhlutun heldur í öllum aðstæðum leikskólans. Þess vegna þarf að fræða og styðja við starfsfólk leikskólanna um mikilvægi orðaforðans, hvaða leiðir sé hægt að nota með börnunum og hvernig má gera umhverfið að málörvandi rými.
Markmiðið með þessu verkefni er annars vegar að draga saman fræðilega þekkingu um rannsóknir á málörvunarleiðum í leikskóla og hins vegar er verkefnið hagnýtt með því að útbúa bækling um málörvun auk kennsluáætlun sem hefur það markmið að efla orðaforða barna. Þetta er gert með það í huga að fræða og styðja við starfsfólk svo það geti tekist á við að sinna börnum með ólíkar þarfir. Skýrt verður frá helstu málörvunarleiðunum í bæklingnum auk kennsluáætlunar. Kennsluáætlunin samanstendur af 18 málörvunarstundum um hvernig má efla orðaforða barna í gegnum þrjú þemu, líkama, árstíðir/veður og heimili. Tíu orð eru í hverju þema og eru þau kennd tvö í einu í hverri málörvunarstund. Notast er við fjölbreyttar kennsluaðferðir meðal annars samræður, leik og söng. Í tengslum við hvert þema hafa sex málörvunarstundir verið skipulagðar, tvö orð verða tekin fyrir í hverri stund og síðan eru öll orðin rifjuð upp í sjöttu stundinni. Þegar starfsfólk fær fræðslu og upplýsingar um tilgang og leiðir til málörvunar gengur því betur að nota aðferðir sem hefur verið sýnt fram á að eru árangursríkar.