Reynsla nemenda og kennara á því hvað vekur áhuga í náttúruvísindakennslu í grunnskóla

Höfundur: Hrannar Rafn Jónasson 

Leiðbeinandi: Haukur Arason / Sérfræðingur: Kristján Ketill Stefánsson

Ágrip/efni: Eitt af meginmarkmiðum náttúrufræðikennslu í grunnskólum landsins að stuðla að jákvæðum viðhorfum nemenda gagnvart náttúrugreinum með því að efla og viðhalda áhuga og forvitni nemenda. En hvað er það sem vekur áhuga nemenda? Markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvað vekur áhuga nemenda á unglingastigi grunnskóla þegar kemur að kennslu náttúrugreina. Leitast verður við að öðlast skilning á því hvað stuðlar að jákvæðum viðhorfum nemenda gagnvart náttúrugreinum og vekur áhuga með því að horfa lengra en á einstaka viðfangsefni og greinar innan sviðsins. Rannsóknin var framkvæmd með eigindlegri rannsóknaraðferð. Tekin voru  þrjú hálfstöðluð einstaklingsviðtöl við kennara á unglingastigi og tíu hálfstöðluð rýnihópaviðtöl við tíu nemendur á unglingastigi grunnskóla. Niðurstöður rannsóknarinnar skiptast í fjögur þemu, það fyrsta er áhrif kennsluhátta á viðhorf nemenda. Annað þemað er námsumhverfi og inntak kennslunnar, þriðja þemað er skilningur og tilgangur náms og það fjórða er kennarinn sjálfur. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að kennsla sem byggir á góðu jafnvægi verklegra athuganna, innlagna kennara, samvinnu nemenda og virkum umræðum stuðli að auknum áhuga nemenda gagnvart námi og kennslu náttúruvísinda. Þá varpa þær ljósi á mikilvægi þess að kennarar hugi vel að námsumhverfinu og því hvernig efnið sé sett fram fyrir nemendur, þar sem niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að skilningur nemenda á efninu og því hvers sé ætlast til af þeim hafi gríðarleg áhrif á áhuga þeirra á faginu. Jafnframt varpa niðurstöður rannsóknarinnar ljósi á ákveðna skekkju þegar kemur að áhugavekjandi kennslu annars vegar og árangursríkrar kennslu hins vegar. Þá virðist skipta miklu máli að nemendur sjái nytsemi í því sem þeim er ætlað að læra og komi auga á tengsl þess við daglegt líf.