,,Er ég bara misheppnuð kona“ ?’ Tilfinningar kvenna tengdar bráðakeisarafæðingu og líðan eftir barnsburð.

Höfundur: Hulda Sif Gunnarsdóttir

Leiðbeinandi: Annadís Greta Rúdólfsdóttir  Sérfræðingur: Auður Magndís Auðardóttir

Ágrip/efni: Rannsóknin fjallar um upplifun og tilfinningar þátttakenda í kjölfar bráðakeisarafæðingu. Meginmarkmiðið er að greina í hvaða samhengi þátttakendur setja reynslu sína af bráðakeisarafæðingu og því sem henni fylgir. Svara var leitað með eigindlegum spurningarlistum og voru þátttakendur beðnir um að svara spurningum með eigin orðum út frá þeirra upplifun, tilfinningum og líðan. Gögnin voru greind með þemagreiningu. Sjónum er beint að því hvaða áhrif þátttakendur töldu að reynsla af bráðakeisarafæðingu hefði á tilfinningar þeirra og upplifun af fæðingu og móðurhlutverkinu. Að lokinni þemagreiningu voru niðurstöður hennar skortur á fræðslu, erfitt fæðingarferli, mikilvægi stuðnings bæði hjá heilbrigðisstarfsfólki og maka eða fjölskyldu, líkamlegt og andlegt bataferli, sjálfsásakanir, brostnar væntingar, og hverju þarf að breyta?
Rannsakandi telur mikilvægt að skoða betur út frá hvaða hugmyndum þátttakendur ganga þegar þær greina frá reynslu sinni af bráðakeisarafæðingu á Íslandi og hvernig þær móta upplifun þeirra af fæðingunni og móðurhlutverkinu fyrstu dagana eftir fæðingu. Einnig telur rannsakandi að mikilvægt sé að opna umræðuna um þær tilfinningar sem geta fylgt bráðakeisarafæðingu og það samhengi sem þær spretta út frá. Jafnframt skiptir máli að heilbrigðisstarfsfólk geri sér grein fyrir alvarleika tilfinninganna og hlúi betur að þeim konum sem enda fæðingarferlið sitt í bráðakeisarafæðingu.