Hvatningarleikurinn. Áhrif tveggja útgáfa af Hvatningarleiknum á endurgjöf kennara, hegðun og námsástundun nemenda og hávaða í kennslustofum í 4. bekk

Höfundur: Alísa Rún Andrésdóttir

Leiðbeinendur: Anna-Lind G. Pétursdóttir og Erla Björk Sveinbjörnsdóttir

Ágrip/Efni:

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif tveggja útgáfa af Hvatningarleiknum (e. Good Behavior Game) á endurgjöf kennara, hegðun og námsástundun nemenda, auk hávaða í kennslustofunni. Útgáfur af Hvatningarleiknum í rannsókninni voru annars vegar táknstyrkja-útgáfa og hins vegar áminninga-útgáfa.

Þátttakendur voru tveir kennarar sem kenndu nemendum í 4. bekk í grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu og samtals átta nemendur úr báðum bekkjum sem áttu hvað erfiðast með sjálfstjórn og námsástundun að mati kennara. Gögnum var safnað með beinu áhorfi í kennslustund þegar nemendur voru í sjálfstæðri verkefnavinnu, eftir innlögn eða fyrirmæli frá kennara. Áhrif Hvatningarleiksins á endurgjöf kennara, hegðun og námsástundun nemenda voru metin með 10 sekúndna hlutbilskráningu fyrir og eftir innleiðingu.

Margþátta einliðasnið sýndi að þegar kennarar notuðu Hvatningarleikinn samhliða kennslu jókst jákvæð endurgjöf að meðaltali frá 1% áhorfsbila upp í 15% áhorfsbila með áminninga-útgáfu og 17% áhorfsbila með táknstyrkja-útgáfu. Þar af jókst lýsandi hrós að meðaltali frá 0,3% áhorfsbila og upp í 13% áhorfsbila með áminninga-útgáfu og 16% áhorfsbila með táknstyrkja-útgáfu. Auk þess minnkaði neikvæð endurgjöf frá 1,5% að meðaltali á grunnskeiði niður í 0% áhorfsbila þegar Hvatningarleikurinn var leikinn samhliða kennslu. Ólíkt var eftir bekkjum hvor útgáfan hafði að jafnaði meiri áhrif á óæskilega hegðun nemenda í vanda að mati kennara. Óæskileg hegðun þeirra minnkaði að meðaltali frá 54% áhorfsbila og niður í 12% áhorfsbila með áminninga-útgáfu og 16% áhorfsbila með táknstyrkja-útgáfu, sem jafngildir um 70-78% minnkun á óæskilegri hegðun þegar Hvatningarleikur var leikinn. Samhliða því jókst námsástundun þessa hóps að meðaltali frá 41% áhorfsbila og upp í 81% áhorfsbila með áminninga-útgáfu og 77% áhorfsbila með táknstyrkja-útgáfu, sem jafngildir um 88-98% aukningu á námsástundun þegar Hvatningarleikur var leikinn. Hávaði í kennslustofu mældist að meðaltali 56 dB í kennslustund á grunnskeiði en lækkaði niður í 43 dB með áminninga-útgáfu og 47 dB að meðaltali þegar táknstyrkja-útgáfa var leikin samhliða kennslu.

Kennarar voru almennt jákvæðir fyrir notkun Hvatningarleiksins og sögðust báðir vilja nota Hvatningarleikinn áfram með bekkjum sínum. Kennarar töldu áminninga-útgáfu af Hvatningarleiknum auðveldari í notkun samhliða kennslu. Þegar nemendur voru spurðir hvor útgáfa leiksins þeim þætti ákjósanlegri voru um 60% nemenda sem aðhylltust táknstyrkja-útgáfu af Hvatningarleiknum og um 40% nemenda sem aðhylltust áminninga-útgáfuna. Niðurstöður benda til þess að báðar útgáfur af Hvatningarleiknum geti haft jákvæð áhrif á endurgjöf kennara, hávaða í kennslustofu og hegðun og námsástundun nemenda sem eiga í erfiðleikum með sjálfstjórn og námsástundun í 4. bekk í grunnskólum hérlendis. Kennarar geti valið útgáfu af Hvatningarleiknum sem hentar eftir aðstæðum og nemendahópi.

Í ljósi jákvæðra áhrifa leiksins á hegðun nemenda og námsástundun benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að Hvatningarleikurinn geti haft umtalsverð jákvæð áhrif fyrir nemendur sem þurfa mestan stuðning í námi.