Hvatningarleikurinn: Samanburður tveggja útgáfa – birting áreitis og fjarlæging áreitis

Höfundur: Sylvía Bergmann Halldórsdóttir

Leiðbeinendur: Anna-Lind G. Pétursdóttir og Erla Björk Sveinbjörnsdóttir

Ágrip/Efni:

Hvatningarleikurinn (e. Good Behavior Game) er bekkjarstjórnunaraðferð sem byggir á hagnýtri atferlisgreiningu og er hannaður með það markmið að hvetja nemendur til að vinna saman sem lið og fylgja reglum um viðeigandi hegðun.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna áhrif tveggja útgáfa af Hvatningarleiknum, (táknstyrkja-útgáfan og áminninga-útgáfan), á óæskilega hegðun og námsástundun nemenda, endurgjöf kennara og hávaða í kennslustofunni. Þegar táknstyrkja-útgáfan var leikin veitti kennari liðum táknstyrkja fyrir að fylgja reglum leiksins og hunsaði reglubrot. Þegar áminninga-útgáfan var leikin veitti kennari öllum bekknum áminningu um viðeigandi hegðun ef hann varð var við reglubrot og fjarlægði stig af viðkomandi liði. Í báðum útgáfum unnu lið leikinn ef þau héldu sig innan viðmiða og fengu verðlaun í formi félagslegra styrkja líkt og stuttra leikja.

Þátttakendur rannsóknarinnar voru tveir kennarar og 13 nemendur, í almennum skóla á höfuðborgarsvæðinu, sem skiptust í tvo 1. bekki sem töldu 19 nemendur hvor, alls 38 nemendur. Nemendur rannsóknarinnar voru valdir með tilliti til óæskilegrar hegðunar og óvirkrar þátttöku í námi að mati kennara sinna. Markhegðun var mæld með hlutbilskráningu og ásamt því voru gerðar hljóðmælingar í kennslustofunni í desibelum (dB). Eftir grunnskeiðsmælingar voru útgáfur Hvatningarleiksins framkvæmdar til skiptis við mælingar í hefðbundinni kennslu með margþátta einliðasniði (e. multielement design). Við lok grunnskeiðsmælinga fengu kennarar stutt námskeið um Hvatningarleikinn þar sem farið var yfir mismunandi útgáfur leiksins og áherslur.

Á grunnskeiði kom óæskileg hegðun fram að meðaltali í 45% áhorfsbila en lækkaði í 6,5% að meðaltali á inngripsskeiði. Námsástundun jókst úr 47% í 90,7% áhorfsbila að meðaltali. Jákvæð endurgjöf kennara jókst úr 5,7% í 24,5% áhorfsbila að meðaltali og neikvæð endurgjöf hvarf alveg í hópi tvö en mældist að meðaltali í 0,3% áhorfsbila í hópi eitt. Á grunnskeiði mældist hávaði að meðaltali 58,1 dB og lækkaði niður í 50,6 dB að meðaltali á inngripsskeiði í hópi 1. Í hópi 2 mældist hávaði á grunnskeiði að meðaltali 54,1 dB og lækkaði niður í 45,2 dB á inngripsskeiði.

Nemendur (93,7%) og kennarar (100%) rannsóknarinnar höfðu gaman af því að leika Hvatningarleikinn og voru sammála um að þeir myndu vilja halda áfram að leika leikinn (100%). Nemendur og kennarar kusu að leika sitthvora útgáfu leiksins þar sem meirihluti nemenda (75%) kaus að leika táknstyrkja-útgáfuna og kennarar (100%) kusu að leika áminningar-útgáfuna. Þessar niðurstöður benda til þess að Hvatningarleikurinn, óháð útgáfu, geti stuðlað að bættri hegðun þeirra nemenda sem eiga erfitt með sjálfstjórn og námsástundun en einnig skapað jákvæðara og hljóðlátara námsumhverfi í kennslustofunni.