Inngildandi menntun á Austurlandi: Áskoranir og tækifæri í kennslu einhverfra nemenda

Höfundur: Ásta Dís Helgadóttir

Leiðbeinandi: Anna Björk Sverrisdóttir
Sérfræðingur: Særún Sigurjónsdóttir

Ágrip/Efni:

Í þessari rannsókn er sjónum beint að kennslu einhverfra nemenda í grunnskólum á Austurlandi. Inngildandi menntun snýst um að mæta þörfum allra barna á grundvelli gilda um félagslegt réttlæti og fullgilda þátttöku. Menntun einhverfra nemenda með tilliti til þessa hefur lítið verið skoðað hér á landi en einhverfir nemendur þurfa oft annars konar nálgun í námi en boðið er upp á innan almennrar kennslustofu. Einhverfa er taugaþroskaröskun og getur haft áhrif á nám og félagsleg tengsl sem mikilvægt er að taka tillit til við útfærslu kennslu. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig skólar á Austurlandi eru að koma til móts við einhverfa nemendur í kennslu og hvaða kennsluaðferðir eru notaðar. Þá er ljósi einnig varpað á þær áskoranir sem kennarar upplifa í tengslum við útfærslu stefnunnar með tilliti til kennslu nemenda sem þurfa annarskonar nálgun í námi.

Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn þar sem notast var við hálf-stöðluð viðtöl. Tekin voru viðtöl við átta kennara á Austurlandi vorið 2025. Bakgrunnur þeirra var fjölbreyttur en þeir áttu það þó sameiginlegt að hafa sótt sér ótal námskeið tengd einhverfu og kennslu einhverfra.

Niðurstöður sýna að viðmælendur nýta einstaklingsmiðaðar kennsluaðferðir með áherslu á sjónrænt skipulag, félagsfærniþjálfun og aðlagað námsefni. Kennarar leggja sig fram við að koma til móts við þarfir einhverfra nemenda en glíma við skort á stuðningsúrræðum, sérfræðiaðstoð og fjármagni. Inngildandi menntun miðar að því að veita öllum nemendum jöfn tækifæri í námi. Þrátt fyrir vilja og metnað kennara til að framfylgja hugmyndafræði inngildingar er innleiðing stefnunnar flókin. Niðurstöður benda til þess að fjölga þurfi stuðningsúrræðum fyrir bæði nemendur og kennara þegar kemur að kennslu einhverfra nemenda.