Höfundur: Júlíana Rós Júlíusdóttir
Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir Sérfræðingur: Bryndís Gunnarsdóttir
Ágrip/efni: Meginmarkmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvernig starfsfólk í einum leikskóla styður við félagshæfni og vináttu barna í leik. Tilgangurinn var fyrst og fremst að kanna viðhorf þeirra til félagshæfni barna og í hvaða aðstæðum þeir telja að hægt sé að efla félagshæfni barna sem best. Leitað var svara við spurningunni: Hvernig styður starfsfólk í einum leikskóla við félagshæfni og vináttu barna í leik? Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar byggir á þeim kenningum sem fræðimenn hafa sett fram um félagshæfni barna og einnig það nám sem á sér stað í gegnum leik. Rannsóknin fór fram í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Viðmælendur í rannsókninni voru einn með uppeldis- og menntunarfræði, tveir menntaðir leikskólakennarar (báðir með viðbótarmenntun), einn þroskaþjálfi, einn grunnskólakennari og einn leiðbeinandi sem starfa á sömu deild í einum leikskóla. Rannsóknin var eigindleg og var gögnum safnað með einstaklingviðtölum við starfsfólk þar sem þeir lýstu þeim aðferðum sem þeir nýttu sér til þess að efla félagshæfni barna og hvernig þeir styðja við vináttu barna í leik. Einnig voru tekin rýnihópaviðtöl við sex börn þar sem þau lýstu því hvað þeim þótti skemmtilegast að gera í leikskólanum og hvernig stuðningur leikskólakennara birtist í starfinu. Einnig fólst gagnaöflun í myndbandsupptökum og vettvangsathugunum. Gögnum var safnað á tímabilinu nóvember 2023 til febrúar 2024. Niðurstöður benda til þess að viðmælendum hafi þótt mikilvægt að efla jákvæð samskipti og að vera til staðar fyrir börnin, sýna þeim virðingu og traust. Þær leiðir sem starfsfólkið taldi sig nýta til þess að efla félagshæfni barna var í leik og stuðningur við að leysa sjálf ágreiningsmál þegar þau komu upp. Niðurstöður bentu einnig til þess að starfsfólkið taldi sig koma til móts við félagslegar þarfir barnanna í öllu starfi leikskólans. Viðmælendur töldu að mikill hávaði og fjöldi barna í hverju rými hefði áhrif á þróun félagshæfni barna í leik og töldu að minni hópar gætu bætt gæði leiksins.