Leiðin að jákvæðri vinnustaðamenningu „Að finna jákvæðni og bjartsýni daglega getur ekki annað en verið til góðs“

Nafn nemanda: Inga Birna Sigurðardóttir
Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir
Sérfræðingur: Sigrún Gunnarsdóttir

Ágrip/efni: Markmið þessarar rannsóknar var að stuðla að jákvæðri og heilsueflandi vinnustaðamenningu í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Sérstök áhersla var lögð á að skoða hvernig breyting á viðhorfi og hugarfari gagnvart aðstæðum sem erfitt er að hafa áhrif á gæti stuðlað að aukinni vellíðan og jákvæðara starfsumhverfi. Tilgangurinn var að skapa vinnuumhverfi þar sem jákvæð og heilbrigð samskipti eru í forgrunni og styrkja þannig faglegt sjálfstæði starfsfólks. Sú spurning sem leiddi rannsóknina var: Hvernig get ég sem skólastjórnandi í leikskóla fengið samstarfsfólk mitt með í að stuðla að jákvæðri og heilsueflandi vinnustaðamenningu?

Heilbrigður vinnustaður er skilgreindur sem staður þar sem samvinna ríkir milli stjórnenda og starfsfólks að umbótum í starfi sem horfa til öryggis, vellíðan og heilsu starfsfólksins.

Rannsóknin er starfendarannsókn sem fór fram í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og var unnin í samstarfi skólastjórnanda og fjögurra deildarstjóra. Byggir gagnaöflun á rannsóknardagbók, vettvangsathugunum og einstaklingsviðtölum við deildarstjórana í upphafi og lok rannsóknar. Gögnin voru greind með þemagreiningu til þess að bera kennsl á þær breytingar sem áttu sér stað frá upphafi rannsóknar þar til henni lauk.

Niðurstöður sýna að sameiginleg gildi, jákvæð samskipti og opið upplýsingaflæði eru lykilþættir í að byggja upp jákvæða og heilsueflandi vinnustaðamenningu. Rannsóknin gefur vísbendingar um að meðvitund og samvinna stjórnenda og starfsfólks um þessi atriði geta leitt til aukinnar starfsánægju og styrkt faglegt sjálfstæði innan leikskólans. Niðurstöðurnar hafa jafnframt hagnýtt gildi fyrir aðra skólastjórnendur sem vilja efla samskipti og jákvæða vinnustaðamenningu á sínum vinnustöðum.