Höfundur: Berglind Kristjánsdóttir
Leiðbeinandi: Valgerður S. Bjarnadóttir
Sérfræðingur: Anna Kristín Sigurðardóttir
Ágrip/Efni:
Tæknilausnir fyrir skólastarf hafa þróast á ógnarhraða síðastliðna áratugi. Fræðimenn í menntarannsóknum á alþjóðavísu hafa reifað áhyggjur sínar um aukna markaðsvæðingu í menntakerfinu og velt upp hvort val á tæknilausnum sé ávallt á faglegum forsendum. Á Íslandi er skortur á rannsóknum á viðfangsefninu sér í lagi á hvaða faglegu forsendum sé valið. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á núverandi stöðu með það fyrir sjónum að niðurstöðurnar gætu nýst stjórnendum við ákvarðanatöku. Rannsóknarspurningin var eftirfarandi: Hvaða faglegu forsendur eru fyrir vali á aðkeyptri þjónustu og tæknilausnum frá sjónarhorni skólastjórnenda í grunnskólum, hver er núverandi staða og framtíðarsýn þeirra varðandi tækni og skólastarf?
Rannsóknin var eigindleg og byggð á hálf-opnum viðtölum við stjórnendur átta grunnskóla í fimm fjölmennum sveitarfélögum. Gögnin voru þemagreind með aðferðum Braun og Clarke (2021).
Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að skólastarf sé háð tæknilausnum og skráningarkerfum. Skólastjórnendur og/eða sveitarfélög tóku lokaákvarðanir um kaup á tæknilausnum en mat skólastjórnenda var að ef ákvarðanir eru í samráði við starfsfólkið auki það líkur á framþróun og starfsánægju. Samkvæmt stjórnendum höfðu kennarar frelsi til að prófa tæknilausnir ef það var innan fjárhagsáætlunar en lausnirnar þurftu að uppfylla öryggis- og gæðaviðmið sem sveitarfélögin settu upp með tilliti til laga um persónuvernd. Þá kom fram að ekkert kennslufræðilegt gæðaviðmið væri til staðar við valið en fagfólki sé treyst að velja út frá markmiðum hverju sinni. Vísbendingar voru um að keyptar séu lausnir án þess að hugað sé gaumgæfilega að innleiðingu. Niðurstöður gáfu til kynna að einkafyrirtæki með skólalausnir séu áberandi í íslenskum skólum og sum þeirra með ráðandi stöðu á markaði og stýri jafnvel áherslum og hraða breytinga innan kerfisins sem eykur jafnvel kostnað. Helstu áhyggjur skólastjórnenda tengdar framtíðartækni voru upplýsingaóreiða, markaðsáróður, skortur á framtíðarsýn og faglegri gagnrýnni hugsun.
Niðurstöður benda til að stjórnendur innan menntakerfisins þurfi að vera meðvitaðir um markaðsöfl sem markaðsetja vörur sínar undir þeim formerkjum að þær spari tíma og/eða uppfylli viðmið og lög. Lykilatriði er að beita gagnrýnni hugsun við val á tæknilausnum og lágmarka þannig líkur á að markaðsöfl fari að stýra menntakerfinu án faglegra kennslufræðilegra forsenda.