„…maður komst alltaf lengra og lengra í lestrinum.“ Áhrif beinnar kennslu og fimiþjálfunar með félagalestri á leshraða nemenda

Höfundur: Ingibjörg Sóley Guðmundsdóttir

Leiðbeinandi: Guðrún Björg Ragnarsdóttir
Sérfræðingur: Helga Sigurmundsdóttir

Ágrip/Efni:

Á undanförnum árum hefur nemendum í sérkennslu fjölgað verulega og nú er svo komið að um 34% grunnskólanemenda fá sérkennslu af einhverju tagi. Talið er að um 7,3–21% grunnskólanemenda glími við einhvers konar lestrartengdan vanda, sem skýrir að hluta þessa auknu þörf fyrir sértækan stuðning í námi. Markmið aðgerðaáætlunar nýrrar menntastefnu er að tryggja öllum nemendum aðgang að heildstæðri skólaþjónustu þar sem lögð er áhersla á þrepaskiptan stuðning sem styður bæði við nám og almenna velferð barna og ungmenna. Með þrepaskiptum stuðningi ættu um 95% nemenda að fá kennslu innan almenns bekkjarstarfs sem veitt er af bekkjarkennara. Það er því mikilvægt að skólar beiti þrepaskiptum stuðningi á markvissan og skilvirkan hátt svo hægt sé að veita nemendum einstaklingsmiðaða aðstoð, áður en þörf er á sértæku inngripi af hendi sérkennara.

Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða hvort lestrarkennsla sem framkvæmd var með félagalestri í hringekju, þar sem stuðst var við gagnreyndar aðferðir beinnar kennslu og fimiþjálfunar, leiddi til bættrar lesfimi nemenda. Þátttakendur í rannsókninni voru 14 nemendur af miðstigi grunnskóla, sjö í tilraunahópi og sjö í samanburðarhópi. Staðlað lesfimipróf Menntamálastofnunar var lagt fyrir nemendur í upphafi og við lok rannsóknar til að meta hvort og hve miklar framfarir urðu á lesfimi þeirra á íhlutunarskeiðinu.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að lesfimi tilraunahóps jókst marktækt meira en samanburðarhóps með inngripinu. Það bendir til þess að lestrarkennsla sem sameinar aðferðir beinnar kennslu og fimiþjálfunar í gegnum félagalestur sé áhrifarík leið til að efla lesfimi nemenda. Niðurstöðurnar undirstrika mikilvægi þess að gagnreyndum kennsluaðferðum sé beitt í lestrarkennslu, sem stuðla að jöfnum tækifærum barna til náms. Þær geta jafnframt veitt kennurum upplýsingar um árangursríkar kennsluaðferðir og þannig geta þær nýst sem leiðarljós við þróun árangursríkrar lestrarkennslu, í þeim tilgangi að tryggja öllum nemendum aðgang að markvissri gæðakennslu sem stutt getur við farsælt nám til framtíðar.