Höfundur: Lilja Dögg Gylfadóttir
Leiðbeinandi: Lóa Guðrún Gísladóttir Sérfræðingur: Eyrún María Rúnarsdóttir
Ágrip/efni: Foreldrahlutverkið varir frá getnaði, meðan börn og foreldrar lifa og tekur ekki enda þó að börn vaxi úr grasi. Þegar líður á ævina geta hlutverkin snúist við og börnin fara að sinna foreldrum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna sýn mæðra á hvernig eigið uppeldi mótaði uppeldissýn þeirra, á samskipti þeirra við börn sín á fullorðinsárum og þörf fyrir foreldrafræðslu. Stuðst var við eigindlega aðferðafræði og tekin voru níu hálfopin viðtöl við mæður á aldrinum 46–59 ára. Greind voru tólf þemu í viðtölunum sem flokkuð voru innan þriggja efnisflokka sem rannsóknin lagði áherslu á; Birtingarmynd eigin uppeldis í foreldrahlutverkinu; Þróun samskipta mæðra við börn sín þegar þau fullorðnast; og Þörf fyrir foreldrafræðslu og stuðning við foreldra í uppeldishlutverkinu. Meginniðurstöður gáfu í fyrsta lagi til kynna að mæður sem áttu í nánum samskiptum við foreldra sína, annað eða bæði, áttu fremur í góðum samskiptum við eigin börn, einnig á fullorðinsárum. Í öðru lagi að samskipti fullorðinna barna og mæðra breytist á margan hátt þegar þau fullorðnast og þróast gjarnan frá samskiptum þar sem foreldri hefur stjórn yfir í vináttusamband með jafningjasamskiptum. Þó virtust mæðurnar áfram þurfa að hafa meira frumkvæði að samskiptum við syni þar sem þeir höfðu sjaldnar samband. Einnig kom fram að þegar viðmælendur urðu ömmur myndist nýjar áskoranir í samskiptum þegar þær fóta sig í uppeldishlutverki barnabarna sinna. Í þriðja lagi var í máli mæðranna skýrt ákall eftir stuðningi og fræðslu í uppeldishlutverkinu, sér í lagi með fyrsta barn, þegar eitthvað bjátar á og þegar barnið flytur að heiman. Niðurstöður rannsóknarinnar eru skref í að auka þekkingu á margbreytilegum hliðum foreldrahlutverksins og að það tekur ekki enda þegar börn fullorðnast. Einnig eru þær brýning á mikilvægi þess að foreldrum standi til boða fræðsla sem tekur mið af hverju tímabili fyrir sig í sambandi foreldra og barna.