„Mér finnst ég geta allt núna‘‘: Reynsla og sýn nemenda á verkefnið Krakkar með krökkum

Höfundur: Aðalheiður María Þráinsdóttir

Leiðbeinandi: Bergljót Gyða Guðmundsdóttir
Sérfræðingur: Jakob Frímann Þorsteinsdóttir

Ágrip/efni

Félagsfærni og líðan barna hafa verið mikið til umræðu síðustu ár og sjónum hefur verið beint að ýmsum leiðum til að styrkja börn á þessu sviði. Í skólum er unnið með ýmiss konar félagsfærniþjálfun, þar á meðal kennsluefnið Krakkar með krökkum. Það snýr að félagsfærni, jafningjafræðslu og leiðtogaþjálfun og er ætlað sem forvarnarverkefni gegn einelti. Nemendur í 9. bekk fá leiðtogaþjálfun og veita svo nemendum í 3. – 6. bekk jafningjafræðslu. Megintilgangur kennsluefnisins er að skapa unglingum vettvang til að vera hvetjandi fyrirmyndir og leiðtogar sem stuðla að jákvæðri hegðun yngri barna. Kennslustundirnar eru skipulagðar með samræmdum hætti og leggja áherslu á að efla bekkjaranda í gegnum þjálfun í félagslegum samskiptum, vináttu og leiðtogafærni. Markmið þessarar rannsóknar er að kanna reynslu nemenda í 9. bekk af leiðtogaþjálfun í gegnum þátttöku í verkefninu Krakkar með krökkum og athuga hvort verkefnið skili sér í betri skólabrag, bekkjaranda og fleira, að mati nemendanna. Um er að ræða eigindlega viðtalsrannsókn sem samanstendur af átta hálfopnum einstaklingsviðtölum við nemendur í 9. bekk sem valdir voru með aðstoð umsjónarkennara. Helstu niðurstöður sýndu að nemendur voru ánægðir með verkefnið og fannst það auka sjálfstraust sitt og hafa jákvæð áhrif á skólabraginn. Á heildina litið lofa niðurstöðurnar góðu um áhrif verkefnisins Krakkar með krökkum og gefa jafnframt tilefni til frekari rannsókna á efninu.