Nafn nemanda: Signý Traustadóttir
Leiðbeinendur: Gísli Þorsteinsson og Hanna Ólafsdóttir
Ágrip/efni:
Þessi ritgerð er 30 eininga M.Ed.-rannsóknarverkefni í kennslu list- og verkgreina með áherslu á hönnun og smíði. Námsgreinin hönnun og smíði var vettvangur rannsóknarinnar og stuðst var við kenningar um áhugahvöt.
Rannsóknin byggðist á eigindlegri aðferðafræði þar sem tekin voru hálfopin viðtöl við kennara í hönnun og smíði haustið 2025. Markmið rannsóknarinnar var að kanna reynslu og viðhorf grunnskólakennara til áhugahvatar nemenda í hönnun og smíði.
Unnið var með eftirfarandi rannsóknarspurningar:
- Hvað vekur og viðheldur áhuga nemenda í námsgreininni hönnun og smíði?
- Hvernig geta hönnunar- og smíðakennarar stutt við áhugahvöt nemenda sinna?
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að námsgreinin hönnun og smíði hafi sérstöðu innan grunnskólans þar sem hún er verkgrein. Mikill meirihluti nemenda vinnur verkefni sín af áhuga og sýnir frumkvæði. Áhugi nemenda virðist mótast af námsmenningunni í smíðastofunni, kennsluáherslum, samskiptum kennara og nemenda, viðhorfum nemenda til námsins, verkefnavali þeirra og frelsi þeirra til sköpunar. Kennararnir telja að áhugi nemenda eflist þegar þeir fá að velja viðfangsefni sín, ef verkefnin tengjast áhugasviði þeirra, og ef þeir finna að kennarinn styður þá. Jafnframt kemur fram að frelsi nemenda ýti undir frumkvæði þeirra og sjálfstæði. Sé frelsi nemenda hins vegar of mikið geta þeir upplifað skort á stuðningi og orðið óöruggir. Þetta getur dregið úr trú nemenda á eigin getu og þar með áhuga þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika ennfremur mikilvægi þess að kennarar í hönnun og smíði móti hvetjandi námsmenningu þar sem jafnvægi er á milli frelsis og leiðsagnar og tekið er tillit til ólíkra þarfa nemenda.