Námsrými í íslenskuverum Reykjavíkurborgar

Höfundur: Þórunn Kristín Erlingsdóttir

Leiðbeinendur: Renata Emilsson Pesková og Hermína Gunnþórsdóttir

Ágrip/Efni:

Á Íslandi hefur orðið mikil fjölgun á íbúum af fjölbreyttum tungumála- og menningarbakgrunni og því hefur nemendum af erlendum uppruna einnig fjölgað í skólum landsins. Í skólum Reykjavíkurborgar hafa nemendahópar því tekið miklum breytingum og hefur sveitarfélagið brugðist við því með ýmsum breytingum til að koma til móts við fjölmenningarlega hópa. Hjá borginni eru starfrækt fjögur íslenskuver fyrir nemendur í 5. – 10. bekk sem eru nýkomin til landsins og eru byrjendur í íslensku.

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á það hvernig kennararnir móta námsrýmin í íslenskuverunum til þess að aðstoða nemendur við að ná félagslegum og námslegum markmiðum. Leitað var svara við því hvernig kennarar líta á námsrýmin og hvaða hlutverk þau spili í kennslu og námi nemenda. Tilgangur rannsóknarinnar var að bæta við þekkingu í kennslu íslensku sem annars máls með það að leiðarljósi að efla íslensku, félagsleg tengsl og samskipti fyrir nýkomna nemendur.

Rannsóknin var með eigindlegu sniði og byggir á viðtölum við kennara sem starfa í íslenskuverum Reykjavíkurborgar. Viðtöl voru tekin við átta kennara sem sumir gegna einnig starfi verkefnastjóra í verunum fjórum og þau greind með þemagreiningu. Ásamt því voru gögn sett í samhengi við vettvangsheimsóknir í verin fjögur til að fylgjast með samskiptum og samstarfi í kennslustundum.

Helstu niðurstöður sýna að kennarar íslenskuveranna telja að mikilvægt sé að skapa gott andrúmsloft og öruggt umhverfi í námsrýmunum. Námsrýmin eru misjöfn og bjóða þannig upp á ólíka möguleika til náms og kennslu sem hafa áhrif á samfélagið og samstarfið meðal fólksins í íslenskuverunum. Helstu ályktanir eru að með því að líta á námsrými í víðum skilningi og skoða samfélagið sem þar myndast er hægt að skapa öflug lærdómssamfélög fyrir nemendur af fjölbreyttum tungumála- og menningarbakgrunni.