„Bara hörku duglegt fólk upp til hópa“. Úrræði innan velferðarþjónustunnar í málum einforeldrisfjölskyldna og stefnubreytingar með tilkomu farsældarlaganna.

Höfundur: Sigurhanna Björg Hjartardóttir  

Leiðbeinandi: Valgerður S. Bjarnadóttir / Sérfræðingur: Auður Magndís Auðardóttir

Ágrip/efni: Einforeldrisfjölskyldur er það fjölskyldumynstur þar sem eitt foreldri býr með barni eða börnum sínum. Einstæðir foreldrar eru stækkandi hópur í hinum vestrænu löndum. Þessi hópur foreldra þarf oft og tíðum að takast á við margskonar samfélagslegar hindranir sem foreldrar í sambúð upplifa sjaldnar. Hindranir einstæðra foreldra geta verið erfið fjárhagsleg staða, samskiptaörðugleikar við hitt foreldrið, skortur á baklandi og stuðningi, erfiðleikar á atvinnumarkaði og aukin hætta á mikilli streitu og vanlíðan vegna óraunhæfra krafa sem fylgir því að vera eina fyrirvinna heimilisins og aðal umönnunaraðili barna sinna. Rannsóknir hafa sýnt að þessir þættir geta valdið erfiðleikum meðal barna þessara foreldra eins og andlegri vanlíðan, hegðunar og tilfinningalegum vanda, lágu sjálfsmati og áhættuhegðun. Því er ljóst að nauðsynlegt er að halda vel utan um þennan hóp. Í nokkur ár hefur velferðarþjónusta sveitarfélaga og Íslenska ríkið unnið að stefnubreytingu til að halda betur utan um börn og fjölskyldur í landinu og árið 2021 voru samþykkt lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna á Íslandi. Þar sem nýtt kerfi í velferðarmálum hefur meðal annars það markmið að þjónusta stærri hóp fjölskyldna á víðara sviði, innleiða snemmtæka íhlutun og að brjóta niður múra kerfanna. Með því er verið að samþætta þjónustu og veita fagaðilum leyfi til að vinna saman að farsæld barna og fjölskyldna þeirra.

Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á upplifun fagaðila á þeim úrræðum sem nýtast í málefnum einforeldrisfjölskyldna og á þeirri stefnubreytingu með tilkomu farsældarlaganna. Tekin voru viðtöl við átta fagaðila innan velferðarþjónustu fjögurra fjölmennra sveitarfélaga á Íslandi þar sem leitast var eftir upplifun viðmælenda á þeim úrræðum sem sveitarfélögin bjóða upp á sem nýtast vel fyrir einstæða foreldra og börn þeirra. Þá var einnig leitast eftir svörun við upplifun fagaðila á þeirri stefnubreytingu sem er verið að innleiða með tilkomu farsældarlaganna og framgang þessara breytinga. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna margar jákvæðar breytingar með samþættri þjónustu en jafnframt að vöntun sé á úrræðum eins og foreldrafræðslu, hópnámskeiðum og geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og foreldra. Einnig að þörf sé á auknum fjárhagslegum stuðningi þegar kemur að skólamáltíðum og tómstundum. Farsældarlögin eru enn í innleiðingarferli þegar þessi rannsókn er gerð og því áhugavert að skoða fyrstu skref innleiðingarinnar frá sjónarhorni fagaðila í velferðarþjónustu í málum einstæðra foreldra og barna þeirra.