Skólaganga barna með tal- og málröskun: Viðhorf foreldra

Höfundur: Fríða Dögg Finnsdóttir

Leiðbeinandi: Guðrún Björg Ragnarsdóttir
Sérfræðingur: Þóra Sæunn Úlfsdóttir

Ágrip/efni:

Markmið rannsóknarinnar var að skoða upplifun og sýn foreldra barna með málþroskaröskun DLD (e. developmental language disorder), af skólagöngu barnanna. Leitað var eftir sýn þeirra á skólastarfið í tengslum við heimanám, samskiptum barnsins við önnur börn í skólanum, upplifun af greiningarferli barnsins, samvinnu við skólann, aðstoð sem barnið hefur fengið á sinni skólagöngu og hvaða framtíðarsýn foreldrarnir hafa varðandi barn sitt. Þátttakendur í rannsókninni voru foreldrar tíu grunnskólabarna á aldrinum 6-16 ára sem hafa fengið greininguna málþroskaröskun DLD. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við foreldra barnanna.

Niðurstöður leiddu í ljós að foreldrar voru almennt sáttir við skóla barnsins síns. Nokkrir töldu þó að mörgu væri ábótavant í skólakerfinu til að hægt væri að mæta þörfum barna þeirra betur. Fram kom að þátttakendur hafa endurtekið þurft að minna kennara á vanda barnanna varðandi málþroska, þá sérstaklega á eldri stigum skólans, þar sem margir kennarar koma að kennslunni. Aftur á móti voru foreldrar yngri barna almennt sáttir, þeir höfðu orð á því að hafa meiri áhyggjur af skólagöngu barnsins síns eftir því sem það eldist. Þátttakendur voru einnig flest sammála um að börnunum þeirra liði vel í skólanum hvað varðar félagslíf og nám. Erfiðleikar barnanna komu, að mati foreldra þeirra, einkum fram þegar þörf var á að lesa rétt í aðstæður eða skilja námsefni. Erfiðleikar barnanna á þessum sviðum höfðu, að mati foreldra, neikvæð áhrif á líðan barnanna og fóru sum börnin að sýna neikvæða hegðun. Hluti barnanna hefur fengið þá aðstoð sem þau eiga rétt á, samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Nefnt var að kennarar þyrftu að vera opnari fyrir fleiri lausnum og úrræðum fyrir nemendur með málþroskaröskun, en oftar en ekki hefðu peningar og starfsmannaskortur innan skólanna neikvæð áhrif á möguleg úrræði. Niðurstöðurnar benda til að börnum með málþroskaröskun mæti ýmsar áskoranir í námi en þeim líði þrátt fyrir það vel í skólanum og eru að fá þá aðstoð sem þau eiga rétt á, að mati foreldranna. Sum barnanna eru að fá þá aðstoð sem þau eiga rétt á, á meðan aðrir þora ekki að sækjast eftir hjálpinni eða að kennarar gefa sér ekki tíma.