„Tíminn er vinur þinn í þessu“ Ávinningur sértæks hópastarfs í félagsmiðstöðvum

Höfundur: Ása Kristín Einarsdóttir

Leiðbeinandi: Ársæll Már Arnarsson
Sérfræðingur: Eygló Rúnarsdóttir

Ágrip/Efni:

Rannsókn þessi fjallar um áhrif sértæks hópastarfs í félagsmiðstöðvum og hlutverk þess í forvarnastarfi með unglingum. Með auknum áskorunum í lífi ungmenna, svo sem félagslegri einangrun, andlegri vanlíðan og breyttum samskiptamynstrum, er mikilvægt að kanna hvernig markvisst hópastarf getur stuðlað að velferð, sjálfsmynd og félagslegri færni þeirra. Rannsóknin byggir á blandaðri aðferðafræði þar sem megindleg gögn eru notuð til að greina áhrif þátttöku í hópastarfi á félagslegan og tilfinningalegan þroska unglinga. Jafnframt var framkvæmd eigindleg greining á viðtölum við starfsfólk félagsmiðstöðva, sem varpar ljósi á aðferðir, áskoranir og faglegt mat þeirra á áhrifum sértæks hópastarfs.

Niðurstöður benda til þess að skipulagt hópastarf hafi jákvæð áhrif á félagslega hæfni, sjálfsmynd og tilfinningalegan þroska unglinga. Megindleg gögn sýna að þátttaka í hópastarfi getur dregið úr einmanaleika og andlegri vanlíðan með því að skapa öryggi, samkennd og vettvang fyrir jákvæð félagsleg tengsl. Í viðtölum við starfsfólk kemur fram að þau telja sértækt hópastarf vera öflugt verkfæri í forvörnum og geti veitt mikilvægan stuðning fyrir unglinga sem glíma við félagslegar áskoranir.

Rannsóknin styður við þá hugmynd að markviss nálgun í hópastarfi geti verið lykilþáttur í forvarnastarfi félagsmiðstöðva. Jafnframt undirstrikar hún mikilvægi aukinnar fagmennsku, stefnumótunar og markvissrar innleiðingar sértæks hópastarfs til að hámarka áhrif þess á líf unglinga.