Aðgengi barna að skapandi efniviði í leikskóla.

Höfundur: Þóra Lilja Kristjánsdóttir 

Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir Sérfræðingur: Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Ágrip/efni: Markmið þessarar rannsóknar var að stuðla að góðu aðgengi barna að efniviði sem tengist sköpun, m.a. í tengslum við myndlist og textíl, einnig að skoða hvaða áhrif sú breyting hafði á sköpun þeirra. Tilgangur rannsóknarinnar var að veita börnum tækifæri til að nálgast efnivið til sköpunar á eigin forsendum og efla þannig sköpun þeirra. Í rannsókninni, sem var starfendarannsókn, var leitast var við að svara spurningunni: Hvernig get ég sem deildarstjóri aukið aðgengi barnanna á deildinni að skapandi efniviði?
Ég sem rannsakandi var að skoða eigin starfshætti með tilliti til aðgengis barnanna að skapandi efniviði og að aðstoða þau við að umgangast hann með snyrtilegum og ábyrgum hætti. Þá leitaðist ég einnig við að efla sjálfstraust og víkka þægindaramma starfsfólks deildarinnar gagnvart reglulegri notkun barna á skapandi efniviði. Rannsóknin fór fram á einni deild af fimm í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Á deildinni voru tuttugu og fimm börn á aldrinum tveggja til fimm ára (2018-2021). Gagnaöflun stóð yfir í tólf vikur, frá ágúst til nóvember 2023. Rannsakandi skráði í rannsóknardagbók í gegnum ferlið og var dagbókin helsta gagnaöflunin á vettvangi. Gögnin voru  flokkuð og greind í þemu.
Helstu niðurstöður bentu til þess að börnin lærðu að nýta efniviðinn á eigin forsendum. Þau komust í aukið flæði í skapandi starfi með efniviðinn og það var ekki eins mikil streita sem myndaðist hjá starfsmönnum í kringum efniviðinn, þar sem þeir þurftu ekki að skipuleggja verkefni fyrir fram og börnin fengu að vinna frjálst með efniviðinn.