Höfundur: Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir
Leiðbeinendur: Sema Erla Serdaroglu Sérfræðingur: Kristín Björnsdóttir
Rannsóknir sýna að einstaklingar sem tilheyra jaðarsettum hópum eiga ekki jafn greiðan aðgang að tómstundastarfi og einstaklingar sem ekki tilheyra jaðarsettum hóp. Skátahreyfingin er þar engin undantekning. Í grunngildum skátahreyfingarinnar á Íslandi stendur að skátastarf eigi að vera aðgengileg tómstund fyrir öll, en að það aðgengi sé háð mannafla og aðstæðum innan skátahreyfingarinnar hverju sinni og aðgengi því í raun ekki tryggt. Til að bæta úr þeirri stöðu þarf skátahreyfingin að huga sérstaklega að inngildingu jaðarsettra hópa; það er að kerfisbundið útrýma þeim aðgengishindrunum sem kunna að vera til staðar í skátastarfi, einkum með tilliti til þess mannafla sem mótar og rekur skátastarfið um land allt. Þetta meistaraverkefni er eigindleg viðtalsrannsókn á reynslu skátaforingja af inngildingu jaðarsettra hópa í skátastarfi á Íslandi.
Rannsóknin gekk út á að varpa ljósi á það hvernig er unnið að inngildingu jaðarsettra hópa í skátastarfi og kanna einnig tækifæri til úrbóta. Skátaforingjar eru þau sem leiða skátastarfið í skátafélögum víðsvegar um landið og í samhengi við inngildandi skátastarf eru skátaforingjar lykilinn að því að tryggja meiri inngildingu. Reynsla þeirra af inngildingu og aðgengi í skátastarfi eru meginuppistaðan í niðurstöðum rannsóknarinnar. Helstu niðurstöður voru þær að skátaforingjarnir höfðu öll þá upplifun að ákveðnir jaðarsettir hópar ættu greitt aðgengi að starfinu og starfið væri fremur inngildandi gagnvart þeim á meðan útilokun annarra hópa væri útbreidd. Fólk af erlendum uppruna, fólk með fötlun og fleiri hópar voru að mati skátaforingjanna ekki sýnileg í starfinu og starfið ekki aðgengilegt þeim hópum. Þá tjáðu foringjarnir vöntun á auðlindum á borð við mannauð, fjármagn, verkfæri og fagþekkingu til að gera starfið meira inngildandi. Skátaforingjarnir lýstu einnig ímyndarvanda skátastarfs sem var talinn bæði orsök og afleiðing þess að ákveðnir hópar væru ekki sýnilegir í skátastarfinu.