Þróun kennsluhátta til eflingar ritunarfærni nemenda

Höfundur: Ásdís Jóhannesdóttir

Leiðbeinandi: Sigríður Ólafsdóttir

Ágrip/Efni:

Ritunarfærni nemenda liggur til grundvallar námsárangri þeirra. Með hækkandi aldri og sívaxandi námslegum kröfum þarf ritunarfærni nemenda að þróast og eflast, samhliða stækkandi orðaforða og öflugri lesskilningi. Samkvæmt rannsóknum hefur reynst árangursríkt, til eflingar lesskilnings og orðaforða nemenda, að vinna með samræður og ritun samhliða lestri á áhugaverðum textum (Hemphill o.fl., 2019; Jones o.fl., 2019).

Rannsakandi er umsjónarkennari á yngsta stigi grunnskóla og hefur brennandi áhuga á þróun læsisfærni barna, hvernig hægt er að mæta öllum á þann hátt að allir njóti góðs af: að nemendur nái tökum á lestri, efli síðan stöðugt lesskilning sinn, orðaforða og ritunarfærni. Því var það meginmarkmið rannsóknarinnar að beita markvissum kennsluaðferðum sem taka mið af síendurteknum rannsóknum á því hvað einkennir læsiseflandi skólastarf.

Rannsóknin fór fram á tímabilinu september 2024 til febrúar 2025 með 24 nemendum mínum í 4.bekk, sem tóku að sér hlutverk tilraunahóps, en fengnir voru til þátttöku 28 jafnaldra nemendur í öðrum skóla sem samanburðarhópur. Í tilraunarhópnum voru tekin fyrir ákveðin umfjöllunarefni með völdum markorðum, nemendur lásu textana, ræddu síðan og skrifuðu um efni textanna. Hér var sjónum beint að aukningu ritunarfærni nemendanna með reglulegum og hnitmiðuðum ritunarsmiðjum. Rannsakandi skráði í dagbók framvindu verkefnisins en auk þess voru lögð fyrir nemendur ritunarpróf í upphafi og við lok tímabilsins, tilraunarhópinn og samanburðarhópinn.

Niðurstöður ritunarprófanna sýndu að tilraunahópurinn sýndi marktækar framfarir sem komu fram í gæðum ritverkanna (1–4 stig), heildarfjölda orða og fjölda sjaldgæfra orða (í lagi 2 eða 3; Auður Pálsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir 2023).

Verkefnið hefur skilað rannsakanda þekkingu og reynslu af læsiseflandi skólastarfi sem mun nýtast áfram í kennsluháttum. Verkefnið getur verið fyrirmynd að starfsþróun kennara, en mikilvægt er að auka þekkingu á þeim tækifærum sem felast í því nemendur ræði og skrifi um efni lesinna texta, sem leitt getur til eflingar lesskilnings þeirra og orðaforða