Höfundur: Hólmfríður Svala Ingibjargardóttir
Leiðbeinandi: Eygló Rúnarsdóttir
Sérfræðingur: Katrín Ólafsdóttir
Ágrip/Efni:
Þetta meistaraverkefni skiptist í tvo hluta, greinargerð og afurð. Afurð verkefnisins er lífsleikniáfangi fyrir framhaldsskólanemendur með áherslu á útinám. Greinargerðin er fræðileg umfjöllun sem áfanginn byggir á.
Markmiðið með þessu verkefni er að skapa fjölbreyttan og fræðandi áfanga sem eflir bæði námslega og persónulega færni nemenda í gegnum útinám. Nemendur munu öðlast skilning á hugtökunum reynslunám og ígrundun í áfanganum ásamt fjölbreyttum kennsluaðferðum. Tilgangur áfangans er fjölþættur og tekur til námslegra, félagslegra og persónulegra þátta. Hann stuðlar að fjölbreyttari kennsluháttum þar sem nemendur læra með upplifun og verklegri nálgun jafnt sem fræðilegri nálgun. Nemendur takast á við raunverulegar áskoranir þar sem að útinám krefst frumkvæðis, sjálfstæðis og ábyrgðar. Auk þess felur það í sér samvinnu og samskiptahæfni, sem styður við félagslegan þroska nemenda. Í flestum framhaldsskólum á Íslandi eru áfangar sem tengjast útinámi oft flokkaðir undir íþróttir eða lýðheilsu og snúast að mestu um hreyfingu, fjallgöngur eða hjólreiðar og bera heitið útivist. Í þessum nýja áfanga er lögð áhersla á bæði verklega og fræðilega þekkingu um útinám, reynslunám og ígrundun, sem virðist skorta í núverandi útiáföngum. Rannsóknarspurning verkefnisins er: Hvaða kennslufræðilegu tækifæri felast í útinámi sem byggir á reynslunámi og ígrundun í lífsleikni framhaldsskóla?
Greinargerðin er fræðileg umfjöllun um lífsleikni og útinám. Þar er fjallað um ávinning þess, hindranir, kennslufræðilega nálgun, fjölbreyttar kennsluaðferðir og hæfniviðmiðmið. Auk þess sem námsmat er skoðað í samhengi við markmið áfangans. Með því að nýta reynslunám og ígrundun sem lykilþætti áfangans er vonast til að hann stuðli að sjálfstæði, ábyrgð og aukinni virðingu fyrir náttúrunni. Uppsetning áfangans er líkt og þekkist í framhaldsskólum, með skýrri áfangalýsingu, hæfni- og þekkingar viðmiðum, kennsluskipulagi og verkefnalýsingum. Námsmatið byggir á þátttöku, verkefnavinnu og ígrundun.