Höfundur: Hildur Margrétardóttir
Leiðbeinandi: Jakob Frímann Þorsteinsson
Ágrip/Efni:
Markmið þessa verkefnis er að safna saman gögnum sem styðja við gerð heildrænnar námskrár fyrir drengi í 7. bekk, með áherslu á heildrænt reynslu- og náttúrumiðað nám í þeim tilgangi að fyrirbyggja framtíðar geðheilsuvanda á við kvíða, þunglyndi, andleysi, og félagslega einangrun. Meginmarkmið námskrárinnar er að auka virkni nemenda til athafna og vilja til náms með því að takast á við líkamlegar og andlegar áskoranir í náttúrulegu umhverfi. Umgjörð námskrárinnar er sótt í lög og reglugerðir um menntastefnu stjórnvalda og þau viðmið sem í gildi eru um almenna menntun, kennslu og kennsluskipan, og uppeldis- og menntunarhlutverk sem grunnskólar þurfa að uppfylla samkvæmt Aðalnámskrá. Í verkefninu er farið yfir almenn ákvæði um grunnþætti menntunar og lykilhæfni sem sett eru fram í Aðalnámskrá og tilgreindar eru námsgreinar, námssvið, og þeir matskvarðar og matsviðmið sem skólum er sett að uppfylla auk viðmiðunarstundaskrá. Við gerð námskrárinnar er stuðst við kenningar frumkvöðla í námskrárgerð, um reynslumiðaðar námskrár og heildrænar námskrár en þær falla að kenningum mínum um hvernig aukin virkni og innri áhugahvöt nemenda eflir færni og félagslegan þroska. Í verkefninu eru teknar saman niðurstöður rannsókna sem sýna fram á jákvæð tengsl útivistar og andlegar og líkamlegar vellíðan nemenda og jafnframt farið yfir helstu hugtök er tengjast námi utan kennslustofu. Við námskrárgerðina er einnig stuðst við kenningar um sjálfræði nemenda og jákvæð áhrif sjálfsákvarðana á innri hvata, sem virkir námsvilja, hæfni og tengslamyndun nemenda. Niðurstaða verkefnisins er afurð sem birtist í nýrri námskrá sem ber nafnið Vilji, virkni og vellíðan – Heildræn námskrá fyrir drengi í 7. bekk.