Höfundur: Sigríður Björk Hafstað
Leiðbeinendur: Ásthildur Björg Jónsdóttir og Hanna Ólafsdóttir
Ágrip/Efni:
Í þessu meistaraverkefni er leitast við að kanna hvernig jafnrétti og frelsi einstaklingsins til að vera hann sjálfur geti mótað kennsluhætti í myndlist. Verkefnið sem er unnið með aðgerðum listrænnar starfendarannsóknar (ABAR) sameinar sjálfsskoðun höfundar og fræðilega greiningu með það að markmiði að þróa starfskenningu þar sem jafnrétti, sjálfsskilningur og tilfinningaleg tjáning eru í forgrunni. Rýnt er í hvernig myndlistarkennsla getur verið vettvangur fyrir sjálfsskilnings, tjáningar og valdeflingar nemenda, með mannréttindi og sjálfbærni að leiðarljósi.
Við greiningu verkefnisins studdist höfundur við sjö persónulegar vörður sem endurspegla mótandi lífsreynslu og gildi: Þörfina fyrir að upplifa kærleik, tilheyra, trú, sjálfsskilning, fyrirmyndir, trú á eigin getu og baráttuna gegn kynjuðum staðalmyndum. Þessar vörður voru unnar út frá fræðilegum sjónarhornum þar sem byggt var á kenningum úr jákvæðri sálfræði, menntunarfræðum og kenningum um farsæld. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um menntun, jafnrétti og vellíðan voru höfð til hliðsjónar við mótun hugmynda og nálganir. Jafnframt er fjallað um listamenn sem hafa haft áhrif á höfund eða henta vel til kennslu í þessum samhengi, einkum Yayoi Kusama og Hirohiko Araki, sem nýta listina til sjálfstjáningar og ígrundunar um persónulega reynslu og sjálfsmynd.
Til að tengja fræðilegar nálganir við eigin starfskenningu stóð höfundur fyrir skapandi smiðjum á Borgarbókasafni Reykjavíkur. Þar tóku sex hópar þátt í lokuðum smiðjum, auk einnar opinnar smiðju, þar sem unnið var með sjálfsskilning og tilfinningalega tjáningu í gegnum klippimyndagerð. Þátttakendur fengu tækifæri til að dýpka skilning á eigin sjálfsmynd og skoða tilveru sína á skapandi hátt í gegnum myndlist. Niðurstöður sýndu fram á að list getur verið öflugt tæki til að efla sjálfskilning, móta gildi, vinna með tilfinningar og túlka persónulega upplifanir.