Höfundur: Kristjana Arnarsdóttir
Leiðbeinandi: Bryndís Gunnarsdóttir
Sérfræðingur: Sara Margrét Ólafsdóttir
Ágrip/Efni:
Færst hefur í aukana að fomlegir kennsluhættir grunnskóla séu notaðir í leikskólastarfi, með þá hugsun að verið sé að undirbúa börn undir grunnskólagöngu sína. Þetta er í þversögn við það sem fram kemur í Aðalnámskrá leikskóla (2011) að formlegir kennsluhættir eiga ekki heima innan veggja leikskólanna í neinu formi, halda þurfi verndarvæng yfir helstu námsleið barna sem leikurinn er. Það sé hlutverk leikskólakennara að veita börnum það rými og þann tíma sem þau þurfa til að nýta leikinn sem sína aðalnámsleið.
Hér var framkvæmd starfendarannsókn í leikskóla þar sem þörf var á breyttum starfsháttum hjá elstu börnum leikskólans, þar sem lögð var of mikil áhersla á formlegt nám á kostnað frjálsa leiksins. Markmiðið með rannsókninni var að fjölga ferðum út fyrir leikskólalóðina með það í huga að leggja áherslu á frjálsan leik barnanna í náttúrulegu umhverfi. Tilgangur verkefnisins var að koma auga á þann ávinning sem kennari og börn öðlast af aukinni útiveru og rýna í hvernig nám barna fer fram í frjálsum leik í náttúrunni.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ávinningur barnanna og rannsakandans af aukinni útiveru er fjölþættur. Börnin styrktust sem hópur í vináttu, samskiptum, hjálpsemi og tillitsemi. Námslegur ávinningur hvers og eins barns var einnig víðtækur þar sem þau byggðu upp persónulega og fjölbreytta reynslu hvert á sínum forsendum í margvíslegum aðstæðum. Þau efldust hvert á sinn hátt hvað varðar getu, styrk og þor í leik sínum í náttúrunni. Sem kennari fann ég djúpa tengingu við börnin sem samverkamaður þeirra og félagi á allt annan hátt en birtist í starfinu innan veggja leikskólans.
Í samfélagi þar sem áhersla á útiveru barna hefur minnkað sökum margra þátta, er mikilvægt að fagmenn innan leikskólanna veiti börnum tækifæri á þeirri mikilvægu reynslu sem þau geta öðlast í náttúrunni í gegnum frjálsan leik. Sá mikilvægi ávinningur sem börn öðlast í náttúrunni er ómetanlegur fyrir framtíð þeirra sem lýðræðislegir borgara.