Áhrif eins leyfisbréfs kennara á leikskólastigið

Höfundur: Guðmunda Vala Jónasdóttir

Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir
Sérfræðingur: Kristín Karlsdóttir

Ágrip/Efni:

Með gildistöku laga nr. 95/2019 var farið að gefa út eitt leyfisbréf fyrir kennara þvert á skólastig, leik- grunn- og framhaldsskóla. Leikskólakennarar höfðu ákveðnar efasemdir um ágæti þessara breytinga. Þeir óttuðust meðal annars að leikskólakennarar myndu færa sig í auknum mæli yfir á grunnskólastigið og að vægi leiksins sem kennsluaðferðar leikskólans gæti minnkað ef aukning yrði á kennurum í leikskólum sem ekki hefðu þekkingu á kennslufræði leiksins. Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á þau tækifæri og áskoranir sem felast kunna í einu leyfisbréfi kennara í samhengi við leikskólakennara sem fagfólk, leikinn sem námsleið, leikskólann sem faglegt lærdómssamfélag, samfellu í námi barna og tengsl skólastiga. Rannsóknin byggir á eigindlegri nálgun þar sem tekin voru viðtöl við þrjá leikskólakennara, þrjá leikskólastjóra, formann Félags leikskólakennara og formann Félags stjórnenda leikskóla. Meginniðurstöður sýna að leikskólakennarar eru almennt jákvæðir gagnvart einu leyfisbréfi og telja það geta eflt leikskólakennara sem fagfólk að starfa í kennarahópi með breiðari fagþekkingu auk þess sem það geti leitt til aukinna gæða leikskólastarfs. Eins telja þeir að með þessu geti skapast sterkari heildarsýn og samfella í námi barna. Varðandi áskoranir sem leikskólakennarar telja helst að geti komið upp í kjölfar þessarar lagasetningar má skipta þeim í þrennt. Í fyrsta lagi fækkun leikskólakennara í leikskólum og flótta þeirra yfir í grunnskólann, þar sem samanburður á starfsaðstæðum milli þessara tveggja skólastiga sé leikskólanum óhagstæður. Í öðru lagi eru uppi áhyggjur af því að fækkun leikskólakennara í leikskólum og breyttar áherslur í faglegu starfi leikskólakennara komi niður á tíma þeirra með börnum í frjálsum leik sem leiði til minnkandi áherslu á leikinn sem námsleið barna. Að síðustu hafa leikskólakennarar áhyggjur af auknum þjónustukröfum á leikskólann sem byggi á forsendum atvinnulífsins fremur en þörfum barnanna.