„Grunnforsenda þess að barn mæti í skóla er að barni líður vel“ Skólaforðun: Upplifun og reynsla fagfólks í hafnfirskum grunnskólum

Höfundur: Guðmundur B. Sigurbjörnsson

Leiðbeinandi: Eva Harðardóttir
Sérfræðingur: Ingileif Ástvaldsdóttir

Ágrip/Efni:

Undanfarna áratugi hefur skólaforðun barna í skólaskyldu námi verið vaxandi vandamál og umræða samhliða því aukist. Samkvæmt lögum eru hlutverk foreldra og skóla fyrst og fremst að stuðla að velferð barna og gæta að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan og þá skulu sveitarfélög styðjast við ákveðinn ramma til að vinna eftir verklagi hvað varðar skólasókn.

Markmið þessarar eigindlegu rannsóknar var að skoða áhrifaþætti skólaforðunar og hvernig líðan barna hefur áhrif á skólagöngu. Rannsóknarspurningar sem lagðar voru til grundvallar tóku til þriggja þátta: Reynsla og upplifun starfsfólks sem vinna með skólaforðunarmál, hvernig verklagi er háttað og að hvaða leyti er tekið tillit til líðan barna og hvort næg fagþekking og aðstaða sé til staðar í skólum til að vinna með vandann.

Við framkvæmd rannsóknarinnar var eigindlegri rannsóknaraðferð beitt. Tilgangurinn var að varpa ljósi á upplifun og reynslu viðmælenda. Viðmælendur í rannsókninni voru átta starfsmenn grunnskóla, sex titlaðir sem stjórnendur og tveir í stoðþjónustu skólanna. Allir viðmælendur eru starfsmenn í grunnskólum í Hafnarfirði og hafa unnið með samræmt verklag sem skólar í Hafnarfirði styðjast við.

Niðurstöður sýna fram á mikilvægi þess að huga að og vinna með líðan barna sem sýna einkenni skólaforðunar og að sérhæfð þjónusta með sérmenntuðum fagaðilum sé til staðar í skólum til að vinna á vandanum. Gott samstarf heimila og skóla er mjög mikilvægt og áhrif foreldra á námframvindu og líðan barna greinileg. Of mikið álag og auknar kröfur í skólastarfi valda því að starfsmenn skóla sem koma að skólaforðunarmálum eiga erfitt með að halda utan um þessi mál og námsumhverfi innan skóla þarf að endurskoða með tilliti til barna sem eru í skólaforðun. Niðurstöður benda einnig til að áhrifaþættir eru margir en andlegir þættir, svo sem kvíða- og depurðareinkenni, eru ein helstu orsök skólaforðunar.

Niðurstöður benda til að skólaforðun barna sé vaxandi vandi í skólakerfinu en að hægt sé að ná betri árangri á vandanum ef verklag, úrræði og stuðningur til starfmanna eru skipulögð með líðan barna í forgrunni. Stóra verkefnið er að barni líði vel í skóla svo það vilji mæta í skóla.