Höfundur: Eva Björg Árnadóttir
Leiðbeinandi: Anna Magnea Hreinsdóttir
Sérfræðingur: Anna Björk Sverrisdóttir
Ágrip/Efni:
Heimanám er mikilvægur hluti af námi barna og hefur áhrif á námsárangur þeirra. Foreldrar gegna lykilhlutverki í stuðningi við heimanám en aðkoma þeirra er oft háð ýmsum þáttum svo sem persónulegri þekkingu á námsefninu, tíma, úrræðum og stuðningi frá skóla. Þótt foreldrar vilji gjarnan styðja börn sín í heimanámi getur það verið krefjandi og í sumum tilfellum valdið togstreitu á heimilinu.
Markmið þessarar rannsóknar er að varpa ljósi á hvernig foreldrum barna á miðstigi grunnskóla gengur að styðja þau í heimanámi í stærðfræði. Leitast er við að greina hvort foreldrar sjái ávinning af því að styðja við heimanám barna sinna og hverjar séu helstu áskoranirnar. Þá er sérstök áhersla lögð á að kanna hvaða stuðning þeir telja sig þurfa til að geta veitt markvissan og öflugan stuðning.
Rannsóknin byggir á eigindlegri aðferðafræði þar sem tekin voru átta hálf-opin viðtöl við foreldra barna úr tveimur ólíkum grunnskólum. Gögnin voru greind með sex þrepa þemagreiningu í anda Braun og Clarke (2021). Niðurstöðukaflinn skiptist í sex megin þemu sem endurspegla helstu viðfangsefni rannsóknarinnar. Þemun eru: stefna skóla, upplýsingagjöf til foreldra, ábyrgð á heimanámi, viðhorf foreldra til stærðfræðiheimanáms, áhrif heimanáms og helstu tækifæri og áskoranir.
Niðurstöður rannsóknarinnar endurspegla ólík viðhorf foreldra til heimanáms. Sumir telja heimanám efla sjálfstæði og færni barnanna en aðrir upplifa það ómarkvisst. Fram kemur að skólana skorti skýra stefnu um heimanám sem getur valdið óvissu hjá foreldrum og dregið úr getu þeirra til að styðja börn sín. Heimanám getur einnig aukið ójöfnuð milli nemenda þar sem aðgengi þeirra að námsstuðningi ræðst oft af menntun foreldra og félagslegri stöðu ásamt þeim tíma sem þeir hafa til að sinna verkefninu. Einnig þarf að bæta samstarf milli heimilis og skóla varðandi heimanám, auka upplýsingagjöf til foreldra og þróa fjölbreyttari og sveigjanlegri leiðir til stuðnings.
Lykilhugtök: Heimanám, stærðfræðinám, ábyrgð foreldra, ábyrgð skóla, samstarf heimilis og skóla, námsstuðningur, upplýsingaflæði.