Höfundur: Margrét Unnur Jóhannesdóttir
Leiðbeinandi: Anna-Lind Pétursdóttir
Sérfræðingur: Katrín Sveina Björnsdóttir
Ágrip/Efni:
Hreinlætisþjálfun (e. toilet training) felur í sér þjálfun á klósettfærni sem kemur fram á milli 22 og 30 mánaða aldri hjá börnum með dæmigerðan þroska en mun seinna hjá börnum með einhverfu og þroskahömlun. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif atferlismiðaðrar hreinlætisþjálfunar á klósettfærni 8 ára drengs og 11 ára stúlku með einhverfu og þroskahömlun sem notuðu enn bleiu.
Framkvæmd rannsóknar skiptist í forsögu, undirbúning, grunnskeið, atferlismiðaða hreinlætisþjálfun og eftirfylgd. Gögnum var safnað með beinum athugunum, viðtölum og matslistum. Samsett margfalt grunnskeiðssnið yfir þátttakendur var notað til að meta atferlismiðaða hreinlætisþjálfun, þar sem stuðst var við verklag sem byggir á aðferðum LeBlanc o.fl. (2005). Verklagið fyrir hreinlætisþjálfun fól í sér notkun nærbuxna en ekki bleiu, aukna vökvainntöku, tímaáætlun fyrir æfingar á notkun salernis og jákvæða styrkingu á viðeigandi notkun salernis. Verklagið fyrir þjálfun á frumkvæði fól í sér reglulega athugun á nærbuxum og þjálfun á frumkvæði að notkun salernis. Hreinlætisþjálfunin fór fram í þremur skrefum þar sem skiptust á æfingalotur á salerni og frjáls tími þar sem fengist var við einföld verkefni innan og síðar utan snyrtingar. Hreinlætisþjálfunin tók fimm daga og fór fram í skóla þátttakenda og á heimili þeirra.
Niðurstöður sýndu að klósettfærni þeirra jókst að meðaltali um 97,5% til að losa þvag í salerni, um 85% til að hafa hægðir í salerni og um 36% til að sýna frumkvæði að notkun salernis. Við lok rannsóknar svöruðu foreldrar, starfsfólk skóla og frístundaheimila spurningalista um upplifun þeirra af hreinlætisþjálfuninni sem sýndi hátt félagslegt réttmæti. Niðurstöður benda til þess að atferlismiðuð hreinlætisþjálfun sem er framkvæmd í skólaumhverfi og heima geti aukið klósettfærni grunnskólabarna með einhverfu og þroskahömlun.