Sýn leikskólabarna á ærslaleik og hlutverk kennara í leiknum

Höfundur: Atli Sævar Ágústsson

Leiðbeinandi: Sara Margrét Ólafsdóttir
Sérfræðingur: Bryndís Gunnarsdóttir

Ágrip/Efni:

Ærslaleikur er tegund af leik barna sem felur í sér hættu á því að þau geti meitt sig eða leikfélaga sína. Þessi leikur hefur gjarnan verið bannaður af fullorðnum af ýmsum ástæðum. Hins vegar sýna rannsóknir að börn geti lært fjölbreytta færni þegar þau ærslast með öðrum börnum.

Markmið rannsóknarinnar er að auka þekkingu og skilning á ærslaleik út frá sjónarmiði leikskólabarna. Tilgangurinn er að finna leiðir svo kennarar geti betur stutt við ærslaleik barna og á sama tíma tryggt öryggi þeirra. Rannsóknin svarar tveimur rannsóknarspurningum: Hver er sýn barna á ærslaleik? Hver er sýn barna á hlutverk kennara í ærslaleik? Þátttakendur rannsóknarinnar eru 21 barn á aldrinum fimm og sex ára sem dvelja í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Byggt var á eigindlegum rannsóknaraðferðum sem litaðar eru af etnógrafískum nálgunum. Rannsakandi tók myndbönd af ærslaleik barnanna í hversdagslegum aðstæðum þeirra. Síðan ræddi hann við börnin á meðan þau horfðu með honum á myndböndin og spurði þau út í leik þeirra. Einnig var skrifuð rannsóknardagbók þar sem vangaveltur og athugasemdir rannsakanda voru skráðar í gegnum ferlið.

Helstu niðurstöður sýna að flestum börnunum þótti ærslaleikur skemmtilegur, en þau þó sóttu þó mismikið í hann. Þá sóttu þau í misharkalega ærslaleiki. Þegar börnunum þótti leikurinn of ærslamikill bentu þau álætin sem fylgdu honum og hræðslu við meiðsl. Lætin og spennan voru þá hluti af því sem þeim sem tóku þátt sóttust í. Þá gat ærslaleikur truflað rólegri leik sem var í gangi í sama rými. Börnin töluðu auk þess um mikilvægi þess að virða mörk og notuðu orðið leikur þegar ærslin voru innan marka og leiðindi þegar farið var yfir mörkin. Til dæmis ef ekki var farið eftir því þegar einhver sagði ‚stopp‘. Þá ræddu þau einnig mikilvægi þess að geta tekið sér pásu og hvílt sig í leiknum.

Börnin útskýrðu einnig hlutverk kennara í ærslaleik. Í fyrsta lagi, nefndu þau gæsluhlutverk hans, þar sem kennarinn er til staðar og passar upp á að börnin virði mörk hvert annars og leiðbeini þeim þegar þau gera það ekki. Í öðru lagi, hafði kennarinn hlutverk huggara sem veitir barni knús eða kælipoka þegar einhver meiðir sig. Í þriðja lagi, vildu börnin að kennarinn myndi taka þátt í leiknum og ærslast með þeim. Í umræðukafla verða niðurstöður tengdar við fræðilega umfjöllun og dregnar af þeim ályktanir um hvernig kennarar geta stutt við ærslaleik barna.