Höfundur: Sif Maríudóttir
Leiðbeinandi: Stefan G Hardonk
Sérfræðingur: Ásta Jóhannsdóttir
Ágrip/Efni:
Markmið þessarar ritgerðar er að þróa og búa til aðgengilegt fræðsluefni um nýsköpun fyrir fatlað fólk með það að leiðarljósi að auka atvinnumöguleika þess og stuðla að valdeflingu. Þrátt fyrir að Ísland hafi staðfest samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar með skuldbundið sig til að tryggja jafnan rétt þeirra til vinnu, standa fatlaðir einstaklingar enn frammi fyrir hindrunum á vinnumarkaði. Þær hindranir felast meðal annars í skorti á þekkingu og stuðningi, takmörkuðum aðlögunarmöguleikum og viðhorfum sem hindra fulla þátttöku fatlaðs fólks í atvinnulífi þ.m.t nýsköpun.
Í ritgerðinni er sjónum beint að því hvernig hægt sé að brúa þetta bil með fræðslu sem veitir fötluðu fólki nauðsynlega þekkingu og verkfæri til að þróa sínar hugmyndir og skapa sér starf í tengslum við nýsköpun, hvort sem það er sem frumkvöðlar eða starfsmenn innan nýsköpunarfyrirtækja. Sérstök áhersla er lögð á að tryggja að fræðslan og fræðsluefni sé aðgengilegt óháð mismunandi skerðingum. Fræðsluefnið var hannað með fjölbreyttu sniði, þ.ám. sem texti, myndrænar leiðbeiningar og myndbönd á þrjá mismunandi vegu: með táknmálstúlki, með texta eða án hvorugs.
Lítið virðist vera um að fatlað fólk sé að sækja um stöðu þar sem unnið er með nýsköpun, hvort sem það er hjá nýsköpunarfyrirtækjum eða jafnvel á eigin spýtur sem frumkvöðlar. Hugmyndin er sú að ef til væri aðgengileg og sérsniðin fræðsla um nýsköpun gæti það verið lykillinn að aukinni atvinnuþátttöku fatlaðs fólks. Með því að tryggja að fræðsla og fræðsluefni taki mið af ólíkum þörfum einstaklinga er hægt að ryðja úr vegi hindrunum, draga úr fordómum og skapa samfélag þar sem fatlað fólk fær sömu tækifæri til að nýta styrkleika sína og þróa sín eigin viðskiptatækifæri.