Höfundur: Ragnar Birkir Bjarkarson
Leiðbeinendur: Hanna Ólafsdóttir og Ásthildur B. Jónsdóttir
Ágrip/Efni:
Þessi starfendarannsókn kannaði notkun listgreina, með sérstakri áherslu á myndlist, til að efla félags- og tilfinninganám í þverfaglegri kennslu á yngsta stigi grunnskóla. Rannsóknin fór fram yfir heilt skólaár og samanstendur af fræðilegri ritgerð og þróun kennsluvefs með rafrænu námsefni. Tvær meginrannsóknarspurningar voru lagðar til grundvallar: „Hvernig get ég nýtt listir í þverfaglegri kennslu á yngsta stigi grunnskóla til að efla félags- og tilfinninganám?“ og „Hvernig get ég nýtt myndlist til að efla tilfinningalæsi hjá yngri nemendum grunnskóla?“
Fræðilegur grunnur byggir á kenningum um mikilvægi listkennslu í heildstæðu námi og þróun tilfinningaþroska hjá börnum. Námsvefurinn www.skapsmunir.com var þróaður til að veita kennurum greiðan aðgang að heildstæðu námsefni sem styður við þverfaglega kennslu í félags- og tilfinningalæsi. Áhersla er lögð á virka þátttöku, gagnrýna og skapandi hugsun ásamt tilfinningalegum þroska.
Gögnum var safnað með rannsóknardagbók sem innihélt ítarlega ígrundun á kennsluaðferðum og upplifun í starfi. Markmið rannsóknarinnar var að þróa aðgengilegt námsefni fyrir kennara sem styður við samþættingu lista og tilfinningalæsis, ásamt því að bregðast við vaxandi þörf fyrir heildstæða nálgun í námi.