Höfundur: Kristján Arnar Ingason
Leiðbeinandi: Anna Kristín Sigurðardóttir
Ágrip/Efni:
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi og jákvæð áhrif kennslufræðilegrar forystu skólastjóra á gæði kennslu, námsárangur nemenda, trú kennara á eigin getu og fleiri þætti farsæls skólastarfs. Nokkrar nýlegagr rannsóknir erlendis frá hafa þó sýnt fram á að ekki eru allir skólastjórar að nýta verkfæri kennslufræðilegrar forystu til fulls þrátt fyrir að þekkja mikilvægi þeirrar nálgunar. Markmið þessa verkefni er að auka skilning á sýn íslenskra skólastjóra á grunnskólastigi á kennslufræðilega forystu, auka skilning á hvernig þeir nýta aðferðir kennslufræðilegrar forystu í starfi, hvernig kennslufræðileg forysta fer saman með öðrum verkefnum skólastjóra og hvað, ef eitthvað, getur helst komið í veg fyrir að skólastjórar setji kennslufræðilega forystu í forgang í starfi sínu. Notast var við eigindlegar rannsóknaraðferðir, með gagnaöflun í gegnum eigindleg viðtöl við starfandi skólastjóra, þar sem gögn voru kóðuð og þemu fundin við úrvinnslu gagna. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að fjölbreytt verkefni, sem meðal annars tengjast rekstri og mannauðsmálum, eru gjarnan í forgangi og tímafrek, sem gerir það að verkum að skólastjórar geta ekki varið eins miklum tíma í faglega forystu og þeir myndu gjarnan vilja. Út frá þessum niðurstöðum má velta því upp hvort að verkefni reksturs og mannauðsmála mætti færa á hendur annarra, til að skólastjórar geti einbeitt sér að faglegu starfi og menntamálum. Áhugavert væri að skoða hvort það myndi styrkja faglega forystu skólastjóra ef ráðnir væru fjármálastjórar í grunnskóla hér á landi.